Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Skjálftinn ekki fyrirboði eldgoss

Mynd: RÚV - Þór Ægisson / RÚV
Ekkert bendir til þess að jarðskjálftinn í dag, sem mældist 5,6, sé forboði eldgoss, segir fagstjóri jarðvár á Veðurstofunni. Landris er hafið við Krýsuvík. Tvisvar á öld verða skjálftar á Reykjanesskaga af stærðinni sex. 

Upptökin á Núpshlíðarhálsi

Upptök skjálftans voru á Núpshlíðarhálsi fyrir ofan Vigdísarvelli. Miðja skjálftans var um fimm kílómetra fyrir vestan Seltún sem er jarðhitasvæðið við Kleifarvatn. 

Meira en hundrað skjálftar fylgdu í kjölfarið. Að minnsta kosti átján þeirra eru stærri en þrír, þar af sjö þeirra stærri en þrír og hálfur. Eftirskjálftarnir eru vestar í átt að Fagradalsfjalli. 

Hefðbundinn aðalskjálfti með eftirskjálftum

Svæðið við upptök skjálftans var myndað með dróna í dag. 

„Hann fannst nánast á öllu landinu. Það er ekkert alveg óeðlilegt þegar maður fer að skoða hristinginn frá svona atburði,“ segir Kristín Jónsdóttir fagstjóri jarðvár á Veðurstofu Íslands. 

Er þetta forboði eldgosa?

„Nei, það er ekkert sem bendir til þess. Þetta var svona hefðbundinn aðalskjálfti og eftirskjálftasyrpa sem fylgir á eftir.“

Landris við Krýsuvík

Skjálftinn í dag er hluti af óróahrinu sem hófst í janúar. Virknin er nú er austar og á öðru misgengi en í lok janúar en hún var þá við fjallið Þorbjörn. 

„GPS-mælingar benda til þess að það sé ris hafið við Krýsuvík. Og það er hægt, þú veist, það er ekki jafn hratt eins og það var þarna við Þorbjörn. En að það sé líka þensla þar.“

Tveir skjálftar um sex að stærð á öld

Þetta er stærsti skjálftinn sem orðið hefur á svæðinu síðan 2003. Árið 2000 þegar skjálfti upp á 6,5 varð 17. júní með upptök á Suðurlandi olli sá skjálfti skjálftum á Reykjanesi, þar af þremur 5 til 5,9 að stærð. Jarðskjálftar á Reykjanesskaga verða ekki eins stórir og á Suðurlandi. 

„Stærstu skjálftarnir sem við vitum til eru af stærð um 6 og rétt ríflega 6 á Reykjanesskaganum. Og það er samkvæmt tölfræðinni þá eru um tveir slíkir sem mælast á öld.“

Er þetta búið í bili eða gæti komið skjálfti sem er stærri en þessi núna fljótlega?

„Við skulum nú bara vona að þetta sé búið í bili en það er auðvitað ekki hægt að útiloka að það gerist eitthvað meira.“

Kvika treður sér inn í jarðskorpuna á Reykjanesskaga

Miðað við fyrri óróatímabil á síðustu öld þá standa þau yfir í nokkur ár, segir Kristín. Því megi gera ráð fyrir meiri skjálftavirkni þarna áfram. Og ekki er hægt að útiloka eldgos síðar:

„Við höfum auðvitað séð í fyrsta skipti síðan að svona stafrænar og nútímamælingar hefjast að þá í fyrsta skipti um í rauninni það að kvika sé að troða sér inn í skorpunni á Reykjanesskaganum. Þannig að það er auðvitað eitthvað sem við erum líka að skoða.“