Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Matorka fær leyfi fyrir 6000 tonna fiskeldi í Grindavík

20.10.2020 - 16:50
Mynd með færslu
 Mynd: Matorka
Matvælastofnun hefur veitt Matorku ehf. rekstrarleyfi fyrir allt að 6.000 tonna eldi á laxi, bleikju og regnbogasilungi að Húsatóftum við Grindavík. Áður hafði Matorka leyfi fyrir 3.000 tonna framleiðslu á sama stað.

Matvælastofnun auglýsti tillögu að rekstrarleyfi í ágúst og frestur til að skila inn athugasemdum rann út 16. september.

„Úttekt starfsstöðvar hefur farið fram og staðfestir Matvælastofnun gildistöku rekstrarleyfis Matorku FE-1153 að Húsatóftum, svæði i5, í Grindavík en starfsemin er einnig háð starfsleyfi Umhverfisstofnunar,“ segir í tilkynningu Matvælastofnunar um útgáfu rekstrarleyfis.

Fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum

Framkvæmdin fór í gegnum mat á umhverfisáhrifum. Í starfsleyfi Umhverfisstofnunar kemur fram að helstu neikvæðu áhrif vegna stækkunarinnar geti aðallega falist í raski á jarðmyndunum og áhrifum á lífríki í fjöru. Framkvæmdin kunni einnig að hafa áhrif á grunnvatnsstöðu, en þar sé dregið úr neikvæðum áhrifum með mótvægisaðgerðum.

Stækkar úr 3.000 í 6.000 tonn

Þessi leyfisveiting nú heimilar Matorku að tvöfalda eldi fyrirtækisins að Húsatóftum. Fyrir þessa stækkun hafði fyrirækið leyfi til að ala 3.000 tonn af laxi, bleikju, regnbogasilungi og borra.