Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Klúður stjórnvalda veldur óvissu um landamæraskimun

20.10.2020 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Það að stjórnvöld hafi ekki birt 300 alþjóðasamninga sem Ísland á aðild að er hneyksli, segir prófessor í lögfræði. Einn þeirra er alþjóðaheilbrigðisreglugerðin sem vísað er í í sóttvarnalögum. Lagastoð fyrir sóttvarnaaðgerðum á landamærum er því takmörkuð og það er klúður hjá stjórnvöldum segir hann. Reglugerðin bindur því bara ríkið en ekki borgarana. 

300 alþjóðasamningar hafa ekki verið birtir

Samkvæmt íslenskum lögum á að birta alþjóðasamninga sem íslenska ríkið gerist aðili að. Þrjúhundruð slíkir samningar hafa ekki verið birtir, segir Bjarni Már Magnússon prófessor í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, þar af er alþjóðaheilbrigðisreglugerðin. 
Páll Hreinsson fjallar um þessa brotalöm í álitsgerð sinni fyrir stjórnvöld um valdheimildir sóttvarnalæknis og heilbrigðisráðherra til opinberra sóttvarnaráðstafana í síðasta mánuði. 

Bindur ekki borgara bara ríkið með því að birta ekki

Skylt er að birta alþjóðasamninga í Stjórnartíðindum. Ef það er ekki gert þá er gildi þeirra verulega skert. 

„Samningur bindur þá bara íslenska ríkið en það er ekki hægt að beita honum gagnvart borgurunum,“ segir Bjarni Már. 

Takmörkuð lagastoð fyrir landamæraskimun 

Í greinum til dæmis um læknisskoðun eða skimun á landamærum í sóttvarnalögunum er vísað í alþjóðaheilbrigðisreglugerðina. Get ég neitað því að fara í skimun og er mér stætt á því að neita því?

„Ég ætla nú ekkert að mæla með því. En lagastoðin fyrir aðgerðum á landamærunum er takmaraðri en ella út af þessu sem við getum bara kallað klúðri stjórnvalda.“

Þetta þýðir í rauninni það að Íslendingar sem eru að koma hér á landamærin í skimun, það er ekki alveg klárt hvort að þeir þurfi að fara eftir því út af þessu klúðri í stjórnvöldum, eins og þú nefnir?

„Nei, nákvæmlega, það þarf bara að skýra þetta miklu frekar.“

Hneyksli að stjórnvöld hafa ekki birt samningana 300

Sem prófessor í lögfræði finnst þér þetta svo ljóður hjá íslenskum stjórnvöldum sem þau ættu að laga hið fyrsta?

Já, þetta er eitthvað alveg, þetta er, ég myndi nú bara kalla þetta hneyksli. Þetta að birta ekki 300 alþjóðasamninga sem skylt er að gera er það.“

Ekki bara að það sé lagskylda segir Bjarni Már því að með því að birta þá ekki geti verið að Ísland sé ekki að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar, því suma þessa samninga sé skylt að innleiða þá í íslenskan rétt og með því að birta þá ekki þá innleiði íslenska ríkið þá ekki að fullu. 

Boðaður á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefur þegar fjallað um þetta þegar Páll Hreinsson kom á fund nefndarinnar. Þetta kom einnig fram í umræðum á þingi í gær um álitsgerð hans. Bjarni Már Magnússon hefur verið boðaður á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar á morgun.