Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fulltrúar íþróttafélaganna funda vegna óvissu

20.10.2020 - 11:09
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar íþróttafélaganna í Reykjavík og íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkurborgar sitja nú á fundi þar sem rætt er um hvernig hátta skuli íþróttastarfi næstu vikurnar. Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri íþrótta- og tómstundasviðs borgarinnar, segir mjög óljóst hvernig eigi að vinna eftir hertum sóttvarnareglum.

Í nýjum sóttvarnareglum, sem tóku gildi í dag, eru íþróttir á leik- og grunnskólaaldri án snertingar leyfðar samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu en það er ekki útlistað nákvæmlega hvaða íþróttir falla undir það. Áfram er íþróttastarf sem krefst snertingar óheimilt og blöndun milli skóla. Töluverðrar óvissu hefur því gætt um íþróttastarf, bæði fullorðina og barna og ungmenna.

Skóla og íþróttasvið allra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu ákváðu í gær í samráði við almannavarnir höfuðborgarsvæðisins að öll íþróttakennsla fari fram utandyra að teknu tilliti til ítrustu sóttvarna. Öll íþróttamannvirki og sundlagar sveitarfélaga verða lokuð.