Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn líkur á skjálfta allt að 6,5 að stærð

20.10.2020 - 20:55
Mynd: RÚV / RÚV
Páll Einarsson, prófessor emeritus í jarðfræði við Háskóla Íslands, segir að skjálftinn í dag sé merkilegur fyrir margra hluta sakir. Á þessu ári hafi lítil skjálftavirkni verið þar sem upptök hans voru. Uppsöfnuð spenna í jarðskorpunni hafi brostið líkt og haft sem rofnar. Austan við upptökin gætu orðið öflugri skjálftar.

Haft sem brast

Jarðskjálfti eins og sá sem varð í dag er afleiðing kvikuhreyfinga. Páll segir að kvikuhreyfingarnar séu drifnar áfram af flekahreyfingum Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Hann segir að staðsetning skjálftans í dag gefi til kynna að þar hafi verið haft í flekaskilunum sem viðbúið var að myndi bresta. Austan við Kleifarvatn sé einnig haft í flekaskilunum og þar hafi ekki verið mikil skjálftavirkni undanfarið. Á árum áður hafi aftur á móti stórir skjálftar átt upptök sín á því svæði sem nær austur í gegnum Hengil, til að mynda skjálfti sem átti upptök í Brennisteinsfjöllum árið 1968 og var af stærðinni sex. Enn stærri skjálfti reið yfir 1929. Hann var 6,5 að stærð. 

„Hér er efniviður í stærri skjálfta. Skjálftasagan segir okkur að skjálftarnir austan við Kleifarvatn eru stærri en þeir sem eru vestan við Kleifarvatn.“ segir Páll.

Land hefur risið um tíu sentimetra seinasta árið og jarðskjálftavirkni verið talsverð. Á Reykjanesskaga eru nokkur eldstöðvakerfi sem raðast eftir skaganum endilöngum. Vestast er Reykjaneskerfið, þá Svartsengi þar sem nú er hafin kvikusöfnun, síðan Fagradalsfjall, þá Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og yfir skaganum gnæfir svo Hengill sem er stórt og öflugt eldfjall.  Eldgos á Reykjanesskaga geta orðið á sprungusveimum sem teygja sig frá suðvestri til norðausturs og þar getur gosið hvar sem er. Yngstu hraunin hafa runnið á sögulegum tíma, eftir landnám, og sum þeirra ná niður í byggð, til dæmis í Grindavík og Vallahverfi í Hafnarfirði.

Flekaskilin á Mið-Atlantshafshryggnum ganga í gegnum Reykjanesskaga endilangan. Flekarnir færast í sundur um einn sentimetra í hvora átt á ári. Við það skapast bil sem fyllist af kviku.

Töluverðar jarðhræringar undanfarið ár

Á flekaskilunum sem liggja gegnum landið, allt frá Reykjanesi og norðaustur eftir landinu, eiga sér stað bæði jarðskjálftar og eldgos. Sjaldnast hvort tveggja á sama stað. Á Reykjanesskaga eru aðstæður þó þannig að búast má við hvoru tveggja. Páll Einarsson segir að undanfarna öld hafi eldstöðvarnar látið lítið á sér kræla en tímabil jarðskjálfta hafi áður gengið yfir. 

Á þessu ári hafa mælst þónokkrir jarðskjálftar á Reykjanesskaga sem eru yfir þremur að stærð. Það gefur vísbendingar um landris utar á skaganum en skjálftinn í dag. Hann átti upptök sín á stað þar sem lítil skjálftavirkni hefur verið fram til þessa. 

„Það virðist vera stöðugur leki af kviku, mjög lítill. Þessi kvika sem hefur komið upp í jarðskorpuna á þessu tímabili, þetta eru allt litlir skammtar. Jafnvel þó að þetta kæmi allt upp á yfirborðið í einu gosi þá væri þetta smágos, svo við skulum ekki dramatisera það að óþörfu.“ segir Páll. 

Viðtal við Pál Einarsson í heild sinni má sjá í spilaranum hér að ofan.