Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Ég hef aldrei upplifað neitt eins og þetta“

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - rúv
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir að hann hafi aldrei fundið eins harðan skjálfta og þann sem reið yfir eftir hádegið í dag. Hann hefur ekki heyrt af skemmdum eða slysum á fólki.

„Já þar sem ég sat á skrifstofu minni hér á annarri hæð í ráðhúsinu, þá nötraði hér allt og skalf mjög lengi að því er mér fannst. Ég hef nú fundið nokkra skjálftana, sérstaklega núna í ár, en engan í líkingu við þetta. Ég hef aldrei upplifað neitt eins og þetta hérna áður,“ segir Kjartan Már.

Datt eitthvað niður eða eitthvað slíkt?

„Nei ekki hérna inni hjá mér og ekki á næstu skrifstofum. En ég veit ekki með annars staðar í húsinu. Við erum með það svæðaskipt út af covid þannig að ég fer ekki um allt. En ég hef ekki heyrt af neinu slíku.“

En hafa borist einhverjar fregnir af skemmdum eða einhverju slíku á ykkar svæði?

„Nei ekki ennþá. En við erum með fund í aðgerðastjórn almannavarna núna klukkan hálf fjögur til að fara yfir stöðuna með lögreglu og slökkviliði, heilbrigðisstofnun og öllum. Þannig að þá fáum við væntanlega upplýsingar ef eitthvert óhapp hefur orðið,“ segir Kjartan Már.
 

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV