Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Býðst til að taka hótel og reka sem hjúkrunarheimili

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Sóltún Öldrunarþjónusta hefur boðið heilbrigðisráðuneytinu það að taka yfir Oddsson hótel sem stendur við Grensásveg, og reka þar hjúkrunarheimili fyrir aldraða.

Þetta er gert í kjölfar þess að ráðuneytið óskaði eftir því við hjúkrunarheimili að þau hjálpi til og taki við sjúklingum sem ekki er hægt að útskrifa af Landspítalanum þar sem hjúkrunarrými skortir fyrir aldraða. 

Í tilkynningu frá Sóltúni segir að á hótelinu væri hægt að reka hjúkrunarheimili fyrir 77 einstaklinga, sem gæti létt vel undir á Landspítalanum. Þá er tekið fram að slíkt verkefni eigi sér væntanlega engin fordæmi á Íslandi.

Tekið er fram að hótelið sé í nýuppgerðu húsnæði á Grensásvegi og ekki þyrfti að gera miklar breytingar til að hægt sé að reka þar þjónustu fyrir aldraða. Á meðan lítil eftirspurn er eftir hótelherbergjum skapist því þetta tímabundna tækifæri til að leysa vanda Landspítalans.

Sóltún Öldrunarþjónusta er rekstraraðili hjúkrunarheimilisins Sólvangs í Hafnarfirði og heimahjúkrunarþjónustunnar Sóltún Heima.