Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Biden ætti að tefla Harris fram í lokahnykknum

Lilja Hjartardóttir, stjórnmálafræðingur. - Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Aðeins tvær vikur eru nú til forsetakosninganna í Bandaríkjunum. Kosið verður þriðjudaginn 3. nóvember. Fylgiskannanir sýna að Joe Biden forsetaframbjóðandi Demókrata hefur þokkalegt forskot á Donald Trump sitjandi forseta og frambjóðanda Repúblikana.

Allt eða ekkert

Samkvæmt vef BBC er forskotið allt að 10 prósentustig. Það eru þó tvær vikur til stefnu og Trump hefur áður sýnt að hann kann að vinna upp forskot, þó ekki hafi það verið eins breitt fyrir fjórum árum og nú. Kosningakerfið í Bandaríkjunum er all frábrugðið kerfinu hér heima. Kosnir eru 538 kjörmenn, mismargir í hverju ríki eftir íbúafjölda. Þannig er Texas með 38 kjörmenn, en New Hampshire aðeins fjóra. Sá frambjóðandi sem sigrar í tilteknu ríki fær alla kjörmenn þess - það er allt eða ekkert. Sá frambjóðandi sem fær 270 kjörmenn eða fleiri verður kosinn forseti.

Baráttan um sveifluríkin 

Í langflestum ríkjum liggur fyrir hvort demókratar eða repúblikanar sigra og þess vegna leggja frambjóðendurnir litla áherslu á kosningabaráttu þar. Hins vegar eru fjórtán ríki þar sem tvísýnt er um hvor ber sigur úr býtum og þar fer kosningabaráttan  fram - einkum í fjölmennum ríkjum sem eru með marga kjörmenn, Flórída, Ohio, Texas og Pennsylvaníu, svo dæmi séu tekin. Biden hefur nú forystu samkvæmt fylgiskönnunum í tólf af þessum fjórtán svokölluðu sveifluríkjum, en sums staðar nauma.

Spegillinn ræddi við Lilju Hjartardóttur stjórnmálafræðing um kosningarnar fram undan. Lilja bjó um árabil í Ohio. Hún segir að Biden ætti að tefla Camillu Harris, varaforsetaefni sínu, meira fram til að þess að freista þess að halda sínu forskoti. 

Heyra má viðtalið við Lilju hér.

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV