
Asbestos er rúmlega 7.000 manna námabær í sunnanverðu Quebec-fylki. Í útjaðri hans er náma sem á sínum tíma var stærsta asbestnáma heims. Asbestið sem sótt var í hana var til skamms tíma mikið nýtt til einangrunar húsa og fleiri mannvirkja í stórum stíl en er nú óvíða notað og víða bannað vegna þess hve heilsuspillandi það hefur sýnt sig í að vera.
Franskan hefur tafið fyrir nafnbreytingu
Nafnbreyting hefur ítrekað komið til umræðu í bænum síðustu árin, vegna þeirra neikvæðu hugrenningatengsla sem Asbestos vekur í huga fólks. Í frétt BBC segir að það sem helst hafi tafið það ferli sé sú staðreynd að bærinn er í frönskumælandi fylki. Asbest nefnist nefnilega amiante á frönsku og því trufli Asbestos-nafnið bæjarbúa minna en ella.
Bæjarráð komst hins vegar nýverið að þeirri niðurstöðu að nafnið fældi erlenda fjárfesta og fyrirtæki frá bænum og ákvað því að efna til atkvæðagreiðslu um nýtt nafn meðal allra bæjarbúa, 14 ára og eldri.
Valið milli sex nafna
Eftir langt og ítarlegt ferli var ákveðið að valið skyldi standa milli sex nafna; L'Azur-des-Cantons, Jeffrey-sur-le-Lac, Larochelle, Phénix, Trois-Lacs og Val-des-Sources. Rétt rúmlega helmingur bæjarbúa sagði sitt álit og valdi bænum nafnið Val-des-Sources, sem á íslensku gæti útlagst sem Dalur lindanna eða einfaldlega Lindadalur. Trois-Lacs, eða Þrjú (stöðu)vötn varð í öðru sæti.
Nafnabreytingin tekur ekki formlega gildi fyrr en um áramót og BBC hefur eftir Hugues Grimard, bæjarstjóra Asbestos, að skiltunum með nafni bæjarins verði ekki breytt alveg strax. Það gæti þó gerst eitthvað fyrir áramótin, og jafnvel fyrir jól - „Það væri hugguleg jólagjöf," segir bæjarstjóri Lindadals í Kanada.