Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

110 hafa smitast á líkamsræktarstöðvum í haust

20.10.2020 - 19:22
Mynd: RÚV / RÚV
Heilbrigðisráðherra vék frá tillögu sóttvarnalæknis og leyfði opnun líkamsræktarstöðva frá og með deginum í dag. Þetta misræmi hefur víða valdið ruglingi. Í þriðju bylgju faraldursins hafa 110 manns smitast á líkamsræktarstöðvum, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum. Þeir hafa svo aftur smitað aðra, þannig að rekja má mörg hundruð smit til starfseminnar.

Ákvörðun heilbrigðisráðherra kom á óvart

Líkamsræktarstöðvar mega opna fyrir skipulagða hóptíma, mörgum til mikillar gleði. „Það eru talsvert margir sem myndu vilja mæta oft á dag, en við erum að takmarka þetta við að þú mætir bara í eitt hólf einu sinni á dag,“ segir Þröstur Jón Sigurðsson, eigandi Sporthússins. 

Erla Júlía Jónsdóttir, íþróttaiðkandi í Sporthúsinu, segir mikilvægt að geta æft undir handleiðslu þjálfara. „Þetta er partur af rútínu sem að þeir sem eru vanir að hreyfa sig mikið og reglulega þurfa á að halda,“ segir Erla Júlía.

Þröstur Jón segir að ákvörðun heilbrigðisráðherra hafi komið á óvart. „Ég átti ekki von á að við fengjum að opna, út frá ummælum Þórólfs, þannig að þetta kom mér á óvart,“ segir Þröstur Jón.

Snerting leyfði í skólaíþróttum en ekki öðru íþróttastarfi barna á höfuðborgarsvæðinu

Fleira í reglugerð ráðherra um sóttvarnir hefur valdið ruglingi. Þannig eru íþróttir leik- og grunnskólabarna á höfuðborgarsvæðinu leyfðar í skólanum, en ekki utan skóla, nema mjög takmarkað. Skólasund er leyfilegt, en sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu mega aftur á móti ekki hafa opið. 
Sveitarfélögin hafa ákveðið, í samvinnu við almannavarnir, að íþróttahús í þeirra umsjón og sundlaugar verði áfram lokaðar. Öll íþróttakennsla í skólum er því utandyra og skólasund fellur niður. 

Jón Viðar Matthíasson, framkvæmdastjóri almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar. „Það var mikið rætt um það í gær að það væri mikil óvissa, menn vissu ekki alveg hvert þeir ættu að stefna. Þess vegna þótti okkur rétt að stíga þetta skref, gefa okkur tíma.“ Þessi ákvörðun verður endurskoðuð að viku liðinni, í takt við álit sóttvarnalæknis.

Hreiðar Gíslason, íþróttakennari í Víðastaðaskóla, segir mikilvægt að krakkarnir fái hreyfingu og útrás. „Við náttúrulega reynum að nota veðrið eins og við mögulega getum og vera úti, og við erum búin að vera rosalega heppin undanfarið,“ segir Hreiðar. Þá þarf að gæta þess að blanda ekki saman ólíkum hópum.

Jón Viðar segir áríðandi að tryggja að það hafi áhrif á sem fæsta ef smit greinist meðal nemenda. „Við erum búin að senda mörg hundruð, jafnvel þúsundir barna í sóttkví. Skólarnir eru búnir að hólfa sig niður eða búa til ákveðna hópa innan skólasamfélagsins til þess að reyna að lágmarka þann fjölda sem þarf að fara í sóttkví og það er eitthvað sem við þurfum að passa,“ segir Jón Viðar.

Flest skipulagt íþróttastarf barna á höfuðborgarsvæðinu liggur því niðri. Aftur á móti opnaði Trampólíngarðurinn aftur í dag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist skynja þreytu meðal almennings. „Auðvitað skynja ég eins og aðrir ákveðna þreytu og þá getur það verið flókið að gera greinamun á því sem er regla og því sem er tilmæli, ég skil það mæta vel,“ segir Katrín. „En við megum ekki missa sjónar á stóra markmiðinu sem er að ná stjórn á þessum faraldri, koma smitstuðlinum niður og vernda þannig líf og heilsu landsmanna. Og ég held að um það séum við öll sammála.“