
Vilja aukið aðhald í loftslagsaðgerðum stjórnvalda
„Með þessu frumvarpi eru lagðar til nokkrar einfaldar breytingar á kerfinu sem heldur utan um aðgerðir stjórnvalda gegn loftslagsbreytingum. Þetta eru kerfisbreytingar sem geta skilað miklu markvissari aðgerðum og haldið stjórnvöldum við efnið. Með því að lögfesta töluleg markmið og festa í sessi rýni á aðgerðum stjórnvalda höfum við bein áhrif á árangur í loftslagsmálum,“ segir Andrés. Hann telur að núverandi kerfi tryggi ekki þær aðgerðir sem hrinda þurfi í framkvæmd til að ná markmiðum Parísarsamningsins.
Verði frumvarpið samþykkt verða markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda fest í lög, aðhaldshlutverk loftslagsráðs aukið gagnvart stefnu stjórnvalda, krafa verður gerð um stigvaxandi metnað í loftslagsmálum og opinber umræða verður efld, meðal annrs með sérstökum loftslagsvettvangi á vegum ráðherra og með því að efna reglulega til sérstakrar umræðu um loftslagsmál innan Alþingis.