Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Vildi ekki sjá hann einan inni í herbergi“

19.10.2020 - 19:40
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Eiginkona íbúa á hjúkrunarheimilinu Eir sem smitaðist af COVID-19 segir öllu skipta að hún gat haldið áfram heimsóknum, klædd hlífðarbúningi. Verkefnastjóri hjúkrunar á Eir telur þetta hafa skipt sköpum við bata þeirra sem smituðust.

Skipti sköpum að hittast

Fimm íbúar á hjúkrunarheimilinu Eir fengu COVID í haust. Þeim er nú öllum batnað, en enginn þeirra fékk alvarleg einkenni. Þrátt fyrir að þurfa að vera í einangrun, þurftu þau ekki að vera ein. Þórdís Hulda Tómasdóttir, verkefnastjóri hjúkrunar á Eir, segir að sjúklingarnir hafi verið einangraðir frá öðrum íbúum, en fengið að vera saman. „Þau voru einangruð í hópeinangrun, þannig að þau voru saman,“ segir Þórdís Hulda. „Það voru æfingar frá iðjuþjálfum og sjúkraþjálfurum sem voru gerðar hér daglega og þá kemur þessi samstaða og sameining og fólki finnst það ekki vera eins eitt.“

Skipt hafi sköpum fyrir bata þeirra að geta verið áfram á heimilinu og fá heimsókn frá sínum nánustu, en hvorki aðstandendur né starfsfólkið sem sinnti sjúklingunum smitaðist.

„Þegar að fyrstu tveir-þrír byrjuðu að greinast þá upplifðum við ofsahræðslu hjá viðkomandi við greininguna og við fundum svo sterkt fyrir því að þrátt fyrir að fólk væri ekki komið með nein COVID-einkenni að það hreinlega hélt að það myndi strax þýða að það væri dauðvona,“ segir Þórdís Hulda. „Og það kom svo mikil hræðsla og svo mikill kvíði og ótti við að geta ekki séð fólkið sitt þannig að við ákváðum það, af því að við höfum þannig aðstöðu hérna, að við gátum boðið fólki, einum aðstandanda hvers íbúa að koma sirka annan hvern dag. Og þá bara aðstoðuðum við viðkomandi í hlífðarbúnað.“

Hefði aldrei gengið fyrir hann að vera einn og innilokaður

Jóhann Gunnar Friðjónsson er með heilabilun og býr á Eir. Hann einn þeirra sem veiktist. Eiginkona hans, Ólafía Egilsdóttir, segir að það hafi skipt öllu máli fyrir þau bæði að geta hist þrátt fyrir veikindin. „Ég vildi ekki sjá hann einan inni í herbergi. Það hefði aldrei gengið upp fyrir hann. Aldrei,“ segir Ólafía. 

„Ég held að það hafi skipt sköpum við bata þeirra og það sem ég held líka er að það skipti sköpum fyrir andlega heilsu aðstandenda, að geta virkilega séð að fólkið hefði það gott, það væri ekki mjög veikt og að þetta væri eitthvað sem væri mögulega hægt að komast úr, þessu ástandi,“ segir Þórdís Hulda.

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV