Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.
Þjóðernissinninn Ersin Tatar var í gær kosinn forseti Norður-Kýpur, þar sem Tyrkir ráða ríkjum, og velti þar með sitjandi forseta af stalli. Tatar er fylgjandi því að Kýpur verði áfram aðskilin ríki: Lýðveldið Kýpur á eynni sunnanverðri, þar sem íbúar eru grískumælandi, og svo Tyrkneska lýðveldið Norður-Kýpur. Núverandi forseti, Mustafa Akinci, er hins vegar formælandi þess að Norður-Kýpur sameinist grískumælandi hluta eyjunnar, sem verði eitt, sameinað ríki.
Tatar fékk rétt tæplega 52 prósent atkvæða, en Akinci um 48 prósent. Recep Tayyip Erdogan, Tyrklandsforseti, sendi Ersin Tatar árnaðaróskir, og Tatar þakkaði Erdogan veittan stuðning í sigurávarpi sínu.
Norður-Kýpur ekki viðurkennt sem sjálfstætt ríki
Tyrkland er eina ríkið sem viðurkennir tilvist og sjálfstæði Tyrkneska lýðveldisins Norður-Kýpur. Alþjóðasamfélagið lítur hins vegar á Norður-Kýpur sem hluta af Lýðveldinu Kýpur, rétt eins og ríkisstjórn Lýðveldisins Kýpur. Hún hefur enn ekki brugðist við kosningaúrslitunum, segir í frétt BBC.