Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tveggja ára samningalota og 330 kjarasamningar

19.10.2020 - 17:00
Mynd: Hófí / RÚV
Áætlað er að gerðir verði 330 kjarasamningar í samningalotunni sem hófst í árslok 2018. Í byrjun september voru enn 45 kjarasamningar lausir. Fjöldi launamanna á bak við hvern samning er mjög mismunandi. 24 dæmi eru um að sérstakir samningar hafi verið gerðir við færri en 10 einstaklinga. Eitt dæmi er um að kjarasamningur hafi verið gerður við einn launamann.

Það er kannski ekki nýtt að samningalotur standi yfir í langan tíma. Þessi, sem er reyndar ekki lokið, hefur staðið nokkuð lengi og líklegt að hún standi yfir í tvö ár. Í fyrra tóku samningamenn sér sumarfrí enda erfitt að kalla samninganefndir saman yfir hásumarið. Svo hefur COVID-19 að sjálfsögðu sett strik í reikninginn. Katrín Ólafsdóttir, dósent við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, skrifar grein í Vísbendingu þar sem hún rýnir í nýja skýrslu Kjaratölfræðinefndar og dregur fram nokkrar tölulegar upplýsingar um íslenskan vinnumarkað. Niðurstaða hennar er að meiri samvinna stéttarfélaga eða sameining gæti styrkt stöðu þeirra við samningaborðið og aukið skilvirkni kjarasamninga.

Fleiri stéttarfélög hér en í Danmörku

Katrín ber saman danskan og íslenskan vinnumarkað. Aðild að stéttarfélögum er talsvert minni í Danmörku en hér á landi, þar sem um 92% launamanna eru í stéttarfélögum en um 67% í Danmörku. 2019 voru 185 þúsund launamenn á Íslandi í stéttarfélögum en 1,9 milljónir í Danmörku. Hér eru 143 stéttarfélög en 112 í Danmörku. Vinnumarkaðurinn í heild er 14 sinnum stærri í Danmörku en á Íslandi. Þegar litið er á fjöldann sem er í stéttarfélögum eru að meðaltali nærri 17 þúsund launamenn í hverju félagi í Danmörku en meðaltalið hér er 1450.

Sér samningur við einn mann

Þetta segir ekki alla söguna því áætlað er að 143 stéttarfélög á Íslandi geri 330 kjarasamninga. Skrifað hefur verið undir um 285 samninga. Í byrjun september var 45 samningum ólokið. Kjaratölfræðinefnd birti yfirlit um fjölda launafólks á bak við 259 kjarasamninga. Samtals voru 158 þúsund manns á kjörskrá eða 610 að meðaltali á hvern samning. Stærstur er samningur VR við Samtök atvinnulífsins, en hann nær til 34 þúsund manns. Fjöldinn á bak við hvern samning er þó æði misjafn. 24 samningar voru gerðir við færri en 10 einstaklinga. Einn samningur var gerður við einn mann. Eftir því næst verður komist er það starfsmaður á Hrafnistu og félagsmaður í Stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga. Helmingur samninga náði til 100 manns eða færri.

Ótrúlega há tala

Katrín Ólafsdóttir segir að íslenskur vinnumarkaður skeri sig úr miðað við vinnumarkað annars staðar á Norðurlöndum. Atvinnuþátttaka er mjög há hér á landi og sömuleiðis hærra hlutfall launafólks í stéttarfélögum. Er ekki hægt að fullyrða að 330 kjarasamningar sé mikill fjöldi miðað við íslenskan vinnumarkað?

„Jú, þetta er minnsti vinnumarkaðurinn á Norðurlöndunum. Ég veit ekki töluna um fjölda kjarasamninga annars staðar en það má segja að 330 eru ótrúlega há tala og mun hærri en ég átti von á.“

Völd stéttarfélaga hér meiri en í Danmörku

Þó að kjarasamningar séu gerðir í samfloti er það alltaf viðkomandi stéttarfélag sem hefur síðasta orðið þegar kemur að því að greiða atkvæði um samninga. Eitt eða tvö stéttarfélög geta fellt sína samninga sem gerðir hafa verið í samfloti fleiri félaga. Þetta er ekki óalgengt og þýðir að semja verður upp á nýtt við viðkomandi félög. Í Danmörku er fyrirkomulagið annað. Þegar félög  semja í samfloti fer aðeins fram ein atkvæðagreiðsla  sem nær til allra félaganna sem voru í samflotinu. Eitt félag getur ekki fellt samning í atkvæðagreiðslu innan síns félags. Að þessu leyti eru völd stéttarfélaga hér meiri en t.d. í Danmörku.

„Jú, hér eru völdin algjörlega hjá stéttarfélaginu. Það er að segja þú getur samið í samfloti við aðra en atkvæðagreiðslan um kjarasamninginn fer alltaf fram hjá hverju og einu stéttarfélagi.“

Kjörsókn niður í 5%

Kjörsókn þegar kemur að því að greiða atkvæði um kjarasamninga er æði misjöfn. Meðal kjörsókn í félögunum innan ASÍ sem greiddu atkvæði um lífskjarasamninginn í fyrra var t.d. 19%. 

„Það er eininglega sorglega lítil þátttaka í atkvæðagreiðslum, alla vega á almenna markaðnum. Það eru dæmi hjá hinu opinbera að atkvæðagreiðsla fari allt upp í 100% en hún virðist vera mjög lítil á almenna markaðnum. Fer niður í 5%,“ segir Katrín.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV