Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Tilviljanir ráða komu sérgreinalækna út á land

Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Ekkert skyldar sérgreinalækna til að veita þjónustu úti á landi. Þjónusta þeirra á landsbyggðinni er því tilviljanakennd og oftar en ekki vegna tengsla við heimamenn. Óásættanleg staða, að mati forstjóra Heilbrigðisstofnunar Austurlands.

Heilbrigðisþjónusta á að vera aðgengileg öllum en það er þó fjarri sanni að allar tegundir heilbrigðisþjónustu séu það. Dagbjört Briem Gísladóttir, íbúi á Reyðarfirði, komst nýlega til augnlæknis, eftir þriggja ára bið. „Upphaflega var mér sagt að ég væri númer 50 á biðlista, en ég vildi bara ekki kyngja því og beitti minni frekju og komst að.“ Hún átti tíma í mars en COVID gerði langa bið enn lengri. 

Þurfa að fara til Reykjavíkur til kvensjúkdómalæknis

Fjölmargir víða um land eru í svipaðri stöðu og þurfa að bíða lengi eða ferðast langt til þess að sækja sér þjónustu sérgreinalækna. Á Vestfjörðum hefur engin föst viðvera kvensjúkdómalækna verið í mörg ár. Háls-, nef- og eyrnalæknir fer tvisvar sinnum á ári á Ísafjörð og augnlæknir fer tvisvar sinnum á ári á Patreksfjörð.

„Þetta er ekki boðlegt, að sérfræðingur sé að koma tvisvar á ári, haust og vor. Svo er bara spurning, lendir hann í einhverju eða kemst ekki og þá bara bíðurðu í hálft ár og heilt ár,“ segir Dagbjört. Þá eru staðir sem enginn sérgreinalæknir fer á, til dæmis Dalvík, Þórshöfn og Raufarhöfn. Á Akureyri er staðan betri. Samt er mikill skortur á geðlæknum og enginn barnaaugnlæknir og fólk sækir mikið af ýmiss konar sérgreinaþjónustu til höfuðborgarinnar. 

544 milljónir í endurgreiddan ferðakostnað árið 2019

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða fólki ferðakostnað vegna heilbrigðisþjónustu. Fimm hundruð fjörutíu og fjórar milljónir fóru í endurgreiðslu alls ferðakostnaðar í fyrra. Mest er endurgreitt til íbúa á Austurlandi eða 170 milljónir og meðalkostnaður á íbúa tæplega 16 þúsund krónur. Þrjátíu og tvær milljónir voru greiddar vegna ferða frá Vestfjörðum eða um 10 þúsund krónur á íbúa. 163 milljónir voru greiddar vegna ferða íbúa á Norðurlandi, um 4.500 krónur á íbúa. Áttatíu milljónir eru vegna ferðakostnaðar á Suðurlandi, 32,6 á Vesturlandi, 28 milljónir vegna ferðakostnaðar á höfuðborgarsvæðinu og rúmlega níu milljónir eru vegna ferða frá Suðurnesjum.

Óboðleg staða

Samkvæmt lögum ber heilbrigðisstofnunum að veita almenna heilbrigðisþjónustu. Sérgreinaþjónusta fellur ekki þar undir og ekkert í samningum Sjúkratrygginga Íslands við þær stéttir hvetur þær eða skyldar til að veita þjónustu úti á landi. „Við getum öll verið sammála um það að aðgengi að sérgreinaþjónustu er mismunandi eftir því hvar búseta fólks er,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands. Það sé ekki ásættanlegt. 

Ekki hafi tekist með kerfisbundnum hætti að skipuleggja hvernig þjónustu sérgreinalækna sé veitt vítt og breitt um landið. Heilbrigðisstofnanir hafi reynt að koma til móts við þörfina með því að fá sérgreinalækna til að koma til sín. Þjónustan sé þar af leiðandi tilviljanakennd og byggi oft á vinasamböndum og tengslum sérfræðinganna heim í hérað. Ekki vilja stjórnvalda til þess að veita þjónustu sérfræðilækna í heilbrigðisumdæmunum. 

Nýta síður þjónustu sérgreinalækna

Verra aðgengi veldur því að fólk nýtir sér síður þjónustu sérgreinalækna. Samkvæmt tölum frá árinu 2017 leituðu íbúar á höfuðborgarsvæðinu 1,85 sinnum til sérgreinalæknis á árinu. Því fjær höfuðborgarsvæðinu sem við förum því sjaldnar fer fólk til sérgreinalæknis. Íbúar á Austurlandi og Vestfjörðum fóru sjaldnast eða um 0,60 sinnum. Guðjón segir þetta bitna harðast á eldra fólki enda eigi það oft á tíðum erfiðara með að ferðast á milli.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV

Hann segist finna fyrir vilja heilbrigðisyfirvalda til þess að laga stöðuna og segir mikilvægt að þau skilgreini ákveðnar tegundir sérgreinaþjónustu sem nærþjónustu, sem þýði að hana eigi að veita í heilbrigðisumdæmunum. Það sé hins vegar ekki raunhæft að ætla að bjóða upp á alla þjónustu; „Ég hef látið mér detta í hug að horfa á lífsskeið fólks og hef nefnt þar, fæðinga- og kvensjúkdómalækna, barnalækna, geðlækna, augnlækna og öldrunarlækna.“