Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Stoðtæki og maður renna saman eins og í Star Wars

Mynd: RÚV / Nýjasta tækni og vísindi

Stoðtæki og maður renna saman eins og í Star Wars

19.10.2020 - 14:02

Höfundar

„Ef vel tekst til og maður virkilega grípur þessi merki er þetta bara að haga sér eins og venjuleg hönd,“ segir Ásgeir Alexandersson sem vinnur hjá Össuri við að þróa nýja tækni sem gerir þeim sem misst hafa útlim kleyft að stýra gervilimum ósjálfrátt.

Rætt er við Ásgeir í Nýjustu tækni og vísindum sem eru á dagskrá RÚV í kvöld. Tæknin felst í því að nema rafvirkni sem myndast í vöðvum þegar taugaboð koma frá heilanum um hreyfingu. „Þetta vöðvarafrit segir til um hvaða hreyfingu manneskjan vill framkvæma, meðvitað eða ekki. Við aflimun er útlimurinn ekki lengur en oft eru vöðvar eftir í stubbnum. Og það er hægt að mæla vöðvarafrit af honum og mæla merkið og nota þau merki til að stýra stoðtæki,“ segir Ásgeir. Takmarkið er að með þessari tækni geti þeir sem misst hafa útlimi stýrt stoðtækjunum með ómeðvitaðri hreyfingu.

„Þetta er ansi þungt fyrir kollinn að hugsa um meðan þú ert að gera eitthvað annað,“ segir Hildur Einarsdóttir sem einnig vinnur að verkefninu hjá Össuri. „Að nú ætla ég að rétta úr hendinni og heilsa þér, það eru margar hreyfingar sem felast í því og ef við getum gefið notanda meiri ósjálfráða stjórn er til mikils að vinna.“ Ásgeir segir að hægt sé að tala um að maður og tæki renni saman í eitt, og í raun sé það þannig að einhverju leyti með núverandi tækni. „En þetta er næsta level, ígræddir nemar, betra merki, og nálgast þetta meira,“ segir Ásgeir. Hann tekur undir að þetta minni á vísindaskáldskap og tekur dæmi af annarri myndinni í Stjörnustríðsbálknum. „Þar er hönd Lukes Skywalker tengd við taugakerfið, þá var hann með bæði náttúrulega stýringu en líka með snertiskynið. Þá voru skynnemar í gervihendinni þannig að þegar maður snerti nemann voru þau skilaboð send í rafstuðstæki sem stuðaði skyntaugina og bjó til eins tilfinningu. Þannig að hann var bara kominn með sína hönd og heilinn vissi ekki betur en að hann væri með sína hönd. Enda stóð hann sig vel í bardaganum eftir það.“

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Skiptar skoðanir á nýju Stjörnustríðs kvikmyndinni

Erlent

Star Wars-blaðamaður sakaður um falsfréttir

Kvikmyndir

Chewbacca-leikarinn í Stjörnustríði látinn

Menningarefni

Rogue One: Star Wars saga sem gengur upp