Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Sömu skilyrði í ræktinni og í íþróttunum

19.10.2020 - 17:30
Mynd með færslu
 Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir
Opnun líkamsræktarstöðva að uppfylltum ströngum skilyrðum byggist á því að jafnræðis og meðalhófs sé gætt. Sömu skilyrði skuli gilda fyrir íþróttaiðkun og líkamsrækt. Þórólfur Guðnason sagði í morgun að hann teldi ekki tímabært að opna líkamræktarstöðvar að svo stöddu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu nú síðdegis. Á upplýsingafundi almannavarna í morgun kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að hann tæki undir að  ósamræmi í minnisblaði hans og útgefinni reglugerð ylli ruglingi. Skýra þyrfti hvaða skilyrði þyrfti að uppfylla til að líkamsræktarstöðvar mættu opna. Hann mælti með því í minnisblaði sínu að líkamsræktarstöðvar skyldu áfram vera lokaðar, en í reglugerðinni er þeim veitt heimild til að opna, með sömu skilyrðum og sett eru fyrir íþróttaiðkun án snertingar.

„Varðandi líkamsræktarstöðvarnar þá er það alveg ljóst í mínum huga að við erum með aðaluppsprettu faraldursins sem er núna er frá líkamsræktarstöðvum, ekki bara einni heldur fleirum. Þetta er sú starfsemi sem ég tel að væri ekki mjög heppilegt að sjá þá starfsemi fara aftur í gang núna með þá vitneskju. Það er það sem við þurfum að ræða betur við ráðuneytið.“ sagði Þórólfur á upplýsingafundinum í morgun. 

Hann fundaði með heilbrigðisráðherra í dag til að fara yfir ákvæði sem gilda um íþróttir og líkamsrækt samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra.

Í reglugerðinni er kveðið á um að líkamsræktarstöðvar megi vera opnar, að því gefnu að þar sé einungis stunduð starfsemi sem rúmast innan þeirra takmarkana sem reglugerðin setur. Ráðuneytið minnir á að öll blöndun milli hópa er óheimil, hvort sem er í tengslum við salernisaðstöðu, búningsaðstöðu, inn- og útganga o.s.frv. 

Skilyrðin sem gilda bæði um íþróttaiðkun og líkamsrækt eru að  slík iðja verði leyfð að hámarki í 20 manna hópi, þar sem 2 metra reglan er virt, sótthreinsun sinnt og engir áhorfendur viðstaddir. 

Íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi sem krefst nándar, snertingar eða notkunar gólf-, loft- eða veggfasts sameiginlegs búnaðar og stórra tækja, svo sem í tækjasölum heilsuræktarstöðva, er óheimil. Notkun á öðrum sameiginlegum búnaði, svo sem handlóðum, hjólum eða dýnum, er heimil ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Búnaður skal ekki fara á milli notenda í sama hóptíma og skal sótthreinsaður fyrir og eftir æfingu.