Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Skotvís sakar Umhverfisstofnun um ófagleg vinnubrögð

19.10.2020 - 15:02
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Skotveiðifélag Íslands (Skotvís) hefur mótmælt þeirri ákvörðun umhverfisráðuneytisins að engar breytingar verði gerðar á veiðitíma rjúpu í ár. Í ályktun frá Skotvís segir að full ástæða hafi verið til að endurskoða árs gamla ákvörðun í þeim efnum. Forsendur hafi breyst verulega á þessu ári.

Á ályktuninni kemur fram að Skotvís hafi, frá 7. september, reynt að fá samráðsfund með Umhverfisstofnun vegna rjúpnaveiða, eins og venja hafi verið á haustin. Fulltúar Skotvís hafi á endanum fengið fund með starfsmönnum umhverfisráðuneytisins og komið þar á framfæri sjónarmiðum félagsins um mikilvægi samráðs áður en endanleg ákvörðun yrði tekin.

Segja ekkert tillit tekið til sjónarmiða Skotveiðifélagsins

„Í kjölfarið sendi Skotvís Umhverfisstofnun og ráðuneytinu bréf þar sem sjónarmið félagsins voru áréttuð og ítrekuð beiðni um samráð. Skömmu eftir að þeim fundi lauk sendi ráðuneytið hins vegar frá sér fréttatilkynningu um fyrirkomulag rjúpnaveiði. Það er því ljóst að fundurinn var aðeins haldinn til að friða félagið,“ segir í ályktun Skotvís.

Vinnubrögðin beri vott um sýndarmennsku

„Í ráðleggingum Umhverfisstofnunar til ráðuneytis er vísað í samráð sem haft var fyrir rúmlega ári síðan, árið 2019. Og þrátt fyrir að nýjar og betri upplýsingar liggi fyrir um veiðistjórnun, er það ákvörðun stofnunarinnar, og ráðherra í kjölfarið að gera ekki neitt.“ Þetta segir Skotvís bera vott um sýndarmennsku sem geti aldrei orðið grunnur að málefnalegri umræðu eða ákvarðanatöku.

Umhverfisstofnun sýni félaginu lítilsvirðingu

„Með þessari framgöngu hefur Umhverfisstofnun sýnt félaginu lítilsvirðingu, hafnað samstarfi á ómálefnalegum forsendum og ekki farið eftir vísindagögnum. Umhverfisráðherra hefur kosið að gera engar athugasemdir við feril málsins þrátt fyrir skort á samráði og ráðgjöf sem er í hrópandi ósamræmi við gögn málsins. Eitthvað sem félagið átti síst von á frá þeim aðilum sem hingað til hafa unnið faglega að þessum málum,“ segir að lokum í ályktun Skotvís.