Leyfa íþróttir án snertingar
Íþróttastarf barna á leik- og grunnskólaaldri á höfuðborgarsvæðinu hefur verið bannað í þriðju bylgju faraldursins þar sem ekki er talið æskilegt að hópar frá ólíkum skólum og bekkjum blandist.
Í nýjum sóttvarnareglum sem taka gildi á morgun eru íþróttir á leik- og grunnskólaaldri án snertingar leyfðar samkvæmt heilbrigðisráðuneytinu en það er ekki útlistað nákvæmlega hvaða íþróttir falla undir það. Áfram er íþróttastarf sem krefst snertingar óheimilt og blöndun milli skóla.
ÍSÍ segir útfærsluna ekki liggja fyrir
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ásamt sérsamböndum fer nú yfir hvernig er hægt að framkvæma þetta í ólíkum greinum. Lárus Blöndal forseti ÍSÍ segir að það sé ekki fyllilega ljóst, sérstaklega er vandamál að blanda ekki ólíkum hópum, bæði er hópaskipting innan skólanna sem þarf að passa og líka á milli skóla.
„Þetta er ekki nógu skýrt að okkar mati,“ segir Eysteinn Pétur Lárusson framkvæmdastjóri Breiðabliks. Íþróttahreyfingin og ráðuneytið fundaði í morgun. „Af þeim fundi fóru menn mjög vongóðir og voru að fara að útfæra þessar reglur í dag,“ segir Eysteinn.
Sveitarfélög íhuga að banna íþróttastarf áfram
„Það var annað hljóð í sóttvarnalækni, við vorum ekki vongóð eftir upplýsingafund almannavarna í dag. Þá var búið að slá á ákveðna hluti sem var búið að ræða um morguninn. Þannig við vitum ekki alveg í hvorn fótinn við eigum að stíga. Og núna seinnipartinn var verið að fara að útfæra þessar reglur betur og þá koma sveitarfélögin inn í það og eru hreinlega að velta fyrir sér hvort að það eigi að opna húsin yfir höfuð eða hafa þau lokuð til þriðja nóvember. Ég hef ekkert heyrt frá þeim fundi þannig að staðan er sú að við vitum ekkert ennþá,“ segir Eysteinn jafnframt.
Æfa ekki sund á morgun
Samkvæmt upplýsingum frá ráðuneytinu er skólasund undir skólunum komið. En sundlaugar á höfuðborgarsvæðinu verða ekki opnaðar fyrir æfingar á morgun. Framkvæmdastjóri Sundsambands Íslands vonar það besta og bíður eftir frekari útskýringum á reglugerð ráðherra.