Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óvenjuleg vígsla Dýrafjarðarganga á sunnudag

19.10.2020 - 16:27
Mynd með færslu
 Mynd: Framkvæmdaeftirlit Dýrafjarða
Dýrafjarðargöng verða opnuð á sunnudag, 25. október, en vígsla þeirra verður með óvenjulegu sniði vegna heimsfaraldursins. Í stað þess að ráðherra klippi á borða við annan enda ganganna, verður fjarskiptatæknin í aðalhlutverki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, heldur ræðu í höfuðstöðvum Vegagerðarinnar í Reykjavík sem útvarpað verður í þá bíla sem bíða þess að aka í fyrsta sinn í gegnum göngin. Að ræðu lokinni hringir Sigurður Ingi svo í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði, sem þá opnar hliðin og hleypir umferð í gegn.

Dýrafjarðargöng koma í stað vegarins yfir Hrafnseyrarheiði, sem hefur lengi verið mikill farartálmi billi byggða á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum eins og segir í frétt frá Vegagerðinni. 

Göngin stytta Vestfjarðarveg um 27,4 kílómetra, en stefnt er að því að halda veglegri opnunarviðburð þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa. Vestfirðingar eru engu að síður hvattir til að hlýða á ræðu ráðherra í bílum sínum við göngin og verða svo með þeim fyrstu til að aka í gegn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lega Dýrafjarðarganga.