Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Nær 28 milljónir Bandaríkjamanna hafa þegar kosið

epaselect epa08747833 Cristian Song drops off his family's completed ballots for the 2020 presidential election at an official ballot drop box in Bethesda, Maryland, USA, 15 October 2020. The 2020 election between US President Donald J. Trump and former Vice President Joe Biden is 03 November.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Kjósandi í Bethesda í Maryland skilar atkvæði sínu í kjörkassa fyrir utankjörfundaratkvæði Mynd: epa
Nú þegar tvær vikur eru í bandarísku forsetakosningarnar hafa nær 28 milljónir kjósenda þegar greitt atkvæði, mun fleiri en áður eru dæmi um. Samkvæmt rannsóknarverkefni sem unnið er að við Flórídaháskóla hafa 27,7 milljónir kjósenda ýmist póstlagt atkvæði sín eða farið með þau á kjörstað.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur margoft lýst efasemdum sínum um áreiðanleika póstkosninga og sagt þær bjóða upp á „einhver mestu kosningasvik sögunnar.“

Mótherji hans og frambjóðandi Demókrata, Joe Biden, hefur hins vegar hvatt fólk til að bíða ekki eftir kjördegi heldur greiða atkvæði utan kjörfundar hið fyrsta. Þannig slái fólk tvær flugur í einu höggi; nýti örugglega atkvæðisrétt sinn og forðist þá smithættu sem fylgir fjölmenni á kjörstað. 

Forsetakosningarnar fara fram þriðjudaginn 3. nóvember næstkomandi.  Samhliða þeim verða kosnir 33 af 100 fulltrúum í öldungadeild Bandaríkjaþings og allir 435 þingmenn í fulltrúadeild þingsins. Auk þess munu kjósendur nokkurra ríkja kjósa sér ríkisstjóra.