Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Kostnaðarsamt að sækja læknisþjónustu

19.10.2020 - 14:40
Mynd með færslu
 Mynd: cc
Íbúi á Akureyri segir mikinn kostnað fylgja því að þurfa að sækja læknisþjónustu til Reykjavíkur. Sjúkratryggingar Íslands bæti aðeins upp ferðakostnað, ekki vinnutap.

Í kvöldfréttum RÚV í gær var fjallað um þjónustu sérgreinalækna á landsbyggðunum. Ekkert skyldar eða hvetur sérgreinalækna til að veita þjónustu utan höfuðborgarsvæðisins og fjöldi fólks sækir heilbrigðisþjónustu þangað.

Fara tvisvar á ári til læknis í Reykjavík

Á Akureyri er enginn barnaaugnlæknir. Þar býr Hulda Guðmundsdóttir, hún á þrjú börn á aldrinum tveggja til fjórtán ára. Tvo eldri hafa notað gleraugu frá því þau voru eins árs. Þau þurfa að hitta augnlækni í Reykjavík tvisvar á ári en yngsta barnið einu sinni á ári. 

SÍ greiðir ferðakostnað

Sjúkratryggingar Íslands endurgreiða fólki ferðakostnað vegna heilbrigðisþjónustu. Reglugerð um ferðakostnað heimilar greiðslur fyrir bæði langar og stuttar ferðir. Langar ferðir eru 20 km og lengri en almennt er réttur til tveggja slíkra ferða á ári. Ef fólk er alvarlega veikt hefur það rétt á að fá endurgreiddar fleiri ferðir. Sjúkratryggingar greiða hins vegar ekki fjarveru frá vinnu eða gistingu. Hulda segir ferðakostnað því aðeins brot af kostnaði fjölskyldunnar vegna læknisferðanna.

Tekur orlof eða launalaust leyfi

„Við þurfum að leigja okkur íbúð þegar við förum til Reykjavíkur þar sem við erum fimm og maður fer ekki með fimm manna fjölskyldu og gistir inni í stofu hjá einhverjum. Við þurfum að taka frí úr vinnu í tvo daga í senn þar sem augnlæknirinn vill hitta börnin tvisvar sinnum, á föstudegi og aftur á mánudegi.“ segir Hulda. Þá sé misjafnt eftir vinnustöðum hvort slíkar ferðir teljist fjarvist vegna veikinda barna. Hún þurfi að taka orlof eða launalaust leyfi.