Golfvellir opna aftur á morgun

Golfvellir opna aftur á morgun

19.10.2020 - 07:29
Leyfilegt verður á ný að spila golf á golfvöllum höfuðborgarsvæðisins frá og með morgundeginum. Þetta er staðfest í tilkynningu sem Golfsamband Íslands setti inn á heimasíðu sína í gærkvöld.

Þar sem reglugerð heilbrigðisráðherra sem mun taka gildi á miðnætti segir að íþróttir án snertinga verði heimilar á ný á höfuðborgarsvæðinu er ekkert því til fyrirstöðu að hleypa kylfingum aftur á golfvelli. Kylfingar munu þó þurfa að leika eftir sömu sóttvarnarreglum og giltu í vor þegar grænt ljós var gefið á golf eftir fyrstu bylgju COVID-19.

„Í þeim leiðbeiningum fólst að boltaþvottavélar voru fjarlægðar af golfvöllum og hrífur teknar úr glompum. Óheimilt er að fjarlægja flaggstangir úr holum og svampar verða í holubotnum svo unnt sé að fjarlægja boltann án þess að snerta holuna. Einungis sambýlisfólk skal deila golfbíl,“ segir meðal annars í tilkynningu Golfsambandsins.

Þá eru kylfingar hvattir til þess að sinna persónulegum sóttvörnum vel og koma í veg fyrir hópamyndanir. Einnig þurfa golfklúbbarnir að vera duglegir við að sótthreinsa sameiginlega snertifleti.

Talsverðrar óánægju gætti meðal margra kylfinga þegar golfvöllunum var lokað fyrir um 10 dögum síðan eftir hertar sóttvarnarreglur á höfuðborgarsvæðinu. Nú ættu kylfingar þó að geta tekið gleði sína á ný.