„Gert af hugsjón, ástríðu og pínulítilli klikkun“

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

„Gert af hugsjón, ástríðu og pínulítilli klikkun“

19.10.2020 - 14:30

Höfundar

„Þetta hefur verið gert af hugsjón, ástríðu og kannski pínulítilli klikkun en við ákváðum bara að gera þetta," segir Jónatan Garðarsson, formaður Vinafélags Krýsuvíkurkirkju. Á dögunum var endurbyggð Krýsuvíkurkirkja hífð á sinn stað en tíu ár tók að byggja kirkjuna. 

Landinn fylgdist með því þegar kirkjan var færð aftur á sinn stað.Kirkjan sem var þar áður gjöreyðilagðist í bruna árið 2010. Örfáum dögum eftir að kveikt var í kirkjunni var Vinafélag Krýsuvíkurkirkju stofnað og strax var ákveðið að endurbyggja kirkjuna en það hefur tekið 10 ár og mikla vinnu sem margir koma að. 

Það var fyrir tilstuðlan Hrafnkels Marinóssonar sem fékk með sér nemendur í húsasmíði við Iðnskólann í Hafnarfirði og svo tækiskólann til að byggja kirkjuna. 

„Okkur vantar alltaf krefjandi verkefni fyrir ungt fólk, sérstaklega ungt fólk sem er í húsasmíðanámi. Láta ungt fólk vinna örlítið út fyrir kassann ekki eftir skrifuðum formúlum. Það er kannski hvatinn af því að gera eitthvað aðeins öðruvísi," segir Hrafnkell. Hann segir smíðina hafa gengið vel. „Smíðin gekk vel þrátt fyrir að vera flókið og umfangsmikið verkefni," segir hann en um 120-140 nemendur hafa komið að smíðinni. Kirkjan var smíðuð eftir teikningum af gömlu kirkjunni og gamlar aðferðir notaðar.