Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Friðsamlegar forsetakosningar í Bólivíu

19.10.2020 - 01:23
epa08756051 Bolivians line up to vote in El Alto, Bolivia, 18 October 2020. Bolivia carries the general elections, in which the president and vice president will be elected, and the Legislative will be renewed for the next five years.  EPA-EFE/Martin Alipaz
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Öllum kjörstöðum hefur nú verið lokað í Bólivíu, þar sem forsetakosningar fóru fram á sunnudag. Flestum kjörstöðum var lokað klukkan fimm síðdegis að staðartíma, níu í kvöld að íslenskum tíma, eins og til stóð, en þó nokkrir voru opnir lengur vegna langra biðraða. Frambjóðandi Sósíalista er talinn líklegastur til sigurs en þarf að líkindum að fara í gegnum aðra umferð í næsta mánuði, þar sem kosið verður á milli tveggja efstu.

Friðsamlegar kosningar þrátt  fyrir ótta um annað

Kosningarnar gengu friðsamlega fyrir sig, en fyrirfram var óttast að til óeirða og átaka gæti komið líkt og í síðustu forsetakosningum, sem haldnar voru fyrir aðeins ári síðan. Þá var Evo Morales, þáverandi forseti, í framboði fjórða sinni, þrátt fyrir mikinn vafa um lögmæti framboðs hans. Óeirðirnar jukust til mikilla muna þegar yfirkjörstjórn birti lokaúrslit kosninganna, sem sýndu mikið stökk í fylgi forsetans frá því sem fyrri tölur höfðu bent til og svo fór að lokum að Morales hrökklaðist frá völdum og úr landi.

Bið verður á því að úrslit liggi fyrir

 

epa08756432 Delegates close the polls and begin counting the votes, in La Paz, Bolivia, 18 October 2020.The voting precincts in Bolivia began to close at five pm local time after nine hours of voting in the general elections.  EPA-EFE/Joedson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Tortryggni ríkir í garð vélvædda talningakerfisins sem notast var við í síðustu kosningum og því úrskurðaði yfirkjörstjórn að grípa skyldi til gömlu, góðu handtalningarinnar. Hún tekur tímann sinn og eru kjósendur og frambjóðendur hvattir til þolinmæði.

 

Núverandi yfirkjörstjórn úrskurðaði fyrra talningarkerfi ólögmætt og tók upp handtalningu, sem veldur því að nokkur bið verður á því að úrslit liggi fyrir. Jeanine Anez, starfandi forseti, kallaði eftir þolinmæði frambjóðenda og kjósenda vegna þessa og hét því að niðurstaða talningarinnar yrði hafin yfir allan vafa þegar hún berst.

 

epa08746315 The presidencial candidate Luis Arce, of the Movement Toward Socialism (MAS), attends a campaign event in El Alto, Bolivia, 14 October 2020. Bolivia will hold its general elections on 18 October 2020.  EPA-EFE/Martin Alipaz
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Luis Arce, frambjóðandi Sósíalista

 

Flokksbróðir Moralesar sigurstranglegastur

Luis Arce, frambjóðandi Sósíalista og flokksbróðir Moralesar, hefur mælst með mest fylgi í öllum skoðanakönnunum, allt frá því hann tilkynnti framboð sitt í janúar. Carlos Mesa, miðjumaður og fyrrverandi forseti Bólivíu, verður í öðru sæti, gangi spár eftir, og þarf þá að kjósa á milli þeirra Arce í næsta mánuði. Forsetakosningarnar, sem var frestað í tvígang vegna kórónaveirufaraldursins, eru þær fyrstu í 20 ár þar sem Evo Morales er ekki í kjöri. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV