Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Færsla sjúklinga af LSH: „Ég skil ekki hvað tefur“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Formaður velferðarnefndar Alþingis skilur ekki hvað tefur stjórnvöld í að ganga til samninga við fyrirtækið Heilsuvernd um að taka við um 100 sjúklingum frá Landspítalanum. Hún bendir á að það geti verið mun ódýrara fyrir hið opinbera en að halda sjúklingunum á spítalanum. Málið var til umfjöllunar á fundi nefndarinnar í morgun.

Forsvarsmenn Landspítalans, fulltrúar heilbrigðisráðuneytisins og forsvarsmenn fyrirtækisins Heilsuverndar komu á fund velferðarnefndar Alþingis í morgun. Tilefnið var að ræða hugmyndir Heilsuverndar um að taka við að minnsta kosti 100 sjúklingum frá Landspítalanum í stórri byggingu við Urðarhvarf í Kópavogi. Heilbrigðisráðuneytið ætlar að hraða eins og kostur er afgreiðslu erindis fyrirtækisins, en þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem það kemur inn á borð ráðuneytisins.

Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar, segir að á fundinum í morgun hafi komið skýrt fram hversu mjög útskriftarvandi Landspítalans hefur aukist.

„Það kom fram að viðvarandi vandi Landspítalans varðandi útskrift er enn til staðar og hefur auðvitað magnast í þessu covid-ástandi. Það eru um 100 sjúklingar innilagðir sem gætu verið annars staðar, sem bíða flutnings. Og þeir ættu að fá að vera annars staðar. Að vera á hjúkrunarheimili er alltaf skárri kostur en að vera á spítala, ef þú þarft ekki að vera á spítala,“ segir Helga Vala.

„Það kom líka fram á fundinum að kostnaðurinn við að hafa sjúklinga annars staðar en á Landspítalanum er mun minni. Kostnaðurinn á hjúkrunarheimilunum er um 40.000 krónur á sólarhring en 70.000 til 200.000 á Landspítalanum. Þannig að þetta er einfalt reikningsdæmi, að við eigum ekki að vera að safna fólki á staði sem það á ekki að vera á, og að það er óhentugt.“

Einfalt reikningsdæmi

Eftir þennan fund, hvernig líst þér á þessa hugmynd, að flytja sjúklinga af spítalanum í þetta húsnæði í Urðarhvarfi?

„Ég vona að heilbrigðisráðuneytið sé opið fyrir því að ganga til samninga við þá sem geta. Það kom líka fram að Heilsuvernd er ekki að reka þjónustu og borga sér út arð, og gerir það ekki heldur varðandi heilsugæsluna. En ég held að það eigi að einblína á þá sem hafa möguleika á að veita heilbrigðisþjónustu, frekar en að horfa á gistiheimili eða hótel hvað varðar þá sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda.“

Þannig að þér finnst að það ætti að ráðast í þetta verkefni?

„Fyrir mér er þetta einfalt reikningsdæmi. Þannig að ég skil ekki hvað tefur,“ segir Helga Vala. „Ég er auðvitað fylgjandi opinberri heilbrigðisþjónustu í hvívetna en það eru samt sem áður sjálfseignarstofnanir og einkaaðilar sem eru nú þegar að reka hjúkrunarheimilin að megin hluta til. Miklu stærri aðili en bæði ríki og sveitarfélög. Þannig að ég sé ekki af hverju það ætti ekki að vera hægt.“

Mun velferðarnefnd beita sér eitthvað í því máli?

„Við eigum eftir að taka umræðuna um þetta í framhaldinu.“

Hvernig var hljóðið í öðrum nefndarmönnum? Voru menn almennt hlynntir þessu?

„Mér fannst það já.“