Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

„Erum á viðkvæmum tíma í faraldrinum“

19.10.2020 - 11:18
Mynd: Ljósmynd/Almannavarnir / Ljósmynd/Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að niðursveiflu í faraldrinum síðustu daga verði að taka með fyrirvara. Við séum á viðkvæmum stað í faraldrinum og nauðsynlegt sé að halda áfram að fara eftir þeim takmörkunum sem er í gildi.

Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna í dag. 42 innanlandssmit greindust í gær, 73% þeirra voru í sóttkví, og langflestir voru á höfuðborgarsvæðinu.

27 liggja á Landspítalanum, þrír á gjörgæslu og tveir þeirra í öndunarvél. Alls hafa 63 þurft að leggjast inn frá 15. september síðastliðnum. Raðgreiningar sýna gefa til kynna þeir sem greinast nú hafi sýkst af sama veirustofni og verið hefur undanfarið. 

„Við erum á viðkvæmum tíma í faraldrinum, þó við séum að sjá niðursveiflu. Það er enginn tími eða ástæða til að slaka á þeim aðgerðum sem hafa verið í gangi og mikilvægt að halda því áfram, þangað til við náum kúrfunni vel niður. Væntanlega eftir 2-3 vikur,“ sagði Þórólfur.

Þórólfur sagði að smitrakning síðustu daga hafi gengið ágætlega, en smitin megi helst rekja til líkamsræktarstöðva og kráa í miðbæ Reykjavíkur. Síðustu daga hafa smit sést einkum innan fjölskyldna, í vinahópum og vinnustöðum. Einnig í skólum, þó það komi utan frá.

„Þetta segir að nú reynir á að fjölskyldur og vinahópar passi sig á að hópast ekki of mikið saman, svo við fáum ekki bakslag í faraldurinn,“ sagði Þórólfur, og hvatti alla almennt til að forðast hópamyndanir.

Þá upplýsti Þórólfur að 22 smit greindust á landamærum í gær, en það var hópur sem kom frá Póllandi. 20 af þeim 22 eru með íslenska kennitölu, en enn er beðið eftir mótefnamælingu.