Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Ekki viss um þingmeirihluta í stjórnarskrármálinu

19.10.2020 - 20:52
Mynd: RÚV / RÚV
Jón Ólafsson, stjórnmálaheimspekingur segst ekki vera sannfærður um að þingmeirihluti sé fyrir því að samþykkja stjórnarskrárbreytingar. Það sé þó ekkert sem standi í vegi fyrir því að taka málið til umræðu á vettvangi þingsins.

Hann segir að nokkrir kostir séu í stöðunni í stjórnarskrármálinu. Það sé merkilegt og áhugavert hversu mikill áhugi sé á málinu. Það sé hins vegar ekki einfalt að afgreiða mál sem þetta. 

„Jafnvel þó að þingið geri það sem þessir sem standa fyrir undirskriftarsöfnuninni eru að fara fram á þá er það enginn endir á málinu vegna þess að þá er bara búið að fela þinginu að fjalla um frumvarp Stjórnlagaráðs frá árinu 2011. Jafnvel þó að þetta sé lagt fram þá er erfitt að ímynda sér eins og staðan er núna að það verði meirihluti sem samþykkir frumvarpið. Við itum að meirihluti núsitjandi þingheims er að öllum líkindum andvígur því að samþykkja þetta frumvarp.“ segir Jón.

Hann segir að þinginu sé ekki endilega skylt að samþykkja frumvarpið, þar sem hver og einn þingmaður greiðir atkvæði samkvæmt eigin sannfæringu. Það væri hins vegar eðlilegt að málið yrði tekið fyrir á þeim vettvangi. Málið var tekið til umræðu á þinginu þingveturinn 2012-13 en aldrei var greitt um það atkvæði. Um ástæður þess segir Jón.

„Ástæðan að hluta til var sú að þeir sem á þeim tíma voru nýteknir við stjórnarflokkunum töldu að það væri ekki meirihluti fyrir því. Það var ákveðið að fara ekki með það lengra.“ segir Jón. 

Hann segir að líklegt sé að þingið myndi fella frumvarpið ef það yrði tekið upp að nýju. Það séu ekki endilega málalok sem myndu hugnast mörgum. Hann segir að stjórnarskrármálið hafi ekki haft áhrif á kosningahegðun hingað til. 

„Það sjónarmið sem flokkarnir hafa fyrir kosningar um stjórnarskrána, það hefur ekki áhrif á fylgi þeirra. Það virðist ekki vera að almenningur sé mjög tilbúinn að refsa stjórnmálamönnum fyrir að gera þetta ekki. Og það er þannig sem fulltrúalýðræðið virkar. Fulltrúarnir þurfa að fá þau skilaboð frá fólki að þeim verði refsað fyrir að gera það sem fólkið vill ekki. Ég held að spurningin núna sé fyrst og fremst, munu þingmenn sjá það þannig að það að gera ekkert í stjórnarskrármálinu,það muni spilla fyrir þeim og þeirra flokki í næstu kosningum.“ segir Jón. 

Hægt er að horfa á Kastljós í heild sinni hér að ofan.