Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Býst við að mynda samsteypustjórn á Nýja-Sjálandi

19.10.2020 - 10:12
epa08752184 New Zealand's Prime Minister Jacinda Ardern speaks at the New Zealand Labour party election night event in Auckland, New Zealand, 17 October 2020. Jacinda Ardern has won a second term in New Zealand's general election.  EPA-EFE/DAVID ROWLAND AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja-Sjálands, hefur gefið í skyn að hún hyggist mynda samsteypustjórn. Talningu atkvæða í þingkosningum er ekki lokið en allt bendir til þess að Verkamannaflokkur Ardern hafi fengið hreinan meirihluta þingsæta. Verkamannaflokkurinn vann mikinn sigur í kosningunum og hefur líklega fengið 64 þingsæti af 120 á þingi Ný-Sjálendinga. Það er besti árangur flokksins í meira en hálfa öld.

Sigurinn þakkaður Ardern

Sigurinn er þakkaður Jacindu Ardern sem nýtur virðingar landsmanna fyrir viðbrögð við hryðjuverkaárás í Christchurch í fyrra og einnig vegna skeleggra aðgerða í baráttunni við COVID-farsóttina. Græningjar bættu einnig við sig í kosningunum og hafa leiðtogar flokksins lýst áhuga á stjórnarþátttöku. Ardern hefur sagt að hún búist við að ný ríkisstjórn geti tekið við eftir tvær til þrjár vikur.