Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Brexit: ESB tilbúið í frekari viðræður

19.10.2020 - 15:57
epa08178728 An anti-Brexit demonstrator holds British-European flags in front of the European Parliament to express their dissatisfaction at Luxembourg place in Brussels, Belgium, 30 January 2020. Britain's withdrawal from the EU is set for midnight CET on 31 January 2020, as the Withdrawal Agreement was approved by the European Parliament on 29 January evening.  EPA-EFE/STEPHANIE LECOCQ
 Mynd: EPA
Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðskiptaviðræðunum við Breta, segir að sambandið sé tilbúið í frekari viðræður. Einungis sé beðið eftir viðbrögðum frá breskum stjórnvöldum.

Samninganefndir ESB og Bretlands hafa setið á rökstólum í Lundúnum í dag og leitað leiða til að halda áfram viðræðum um viðskiptasamning. Hann á að taka á gildi um áramót þegar Bretar segja endanlega skilið við sambandið.

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, setti 15. október sem lokadaginn til að ná samkomulagi, en enn bólar ekkert á því. Hvorir um sig saka hinn um þvergirðingshátt. Slaka verði á kröfum á báða bóga til að unnt verði að ljúka málinu. 

Boris Johnson lýsti því yfir í síðustu viku að hann væri reiðubúinn að slíta viðræðunum. Breska stjórnin sendi atvinnurekendum síðan viðvörun í dag þar sem sagði tíminn væri að renna út. Bresk fyrirtæki yrðu að vera reiðubúin erfiðum tímum, hvort sem viðskiptasamningur næðist eða ekki.

Michael Gove, ráðherra í bresku ríkisstjórninni, sagði á þingi í dag að tilgangslaust væri að halda viðræðum áfram ef Evrópusambandið væri ekki reiðubúið að viðurkenna fullveldi Bretlands frá næstu áramótum. Hann fagnaði eigi að síður yfirlýsingu Michels Barniers um að sambandið væri reiðubúið að halda viðræðum áfram.