Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Bjarni: Tímabært að finna lendingu með auðlindaákvæðið

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins segir ekki eiga að þrýsta í gegn breytingum á stjórnarskránni náist ekki samstaða. Sjálfur segist hann ekki sjá í stjórnarskránni rót einhvers vanda sem við er etja í dag. Hann segir tímabært að finna lendingu í auðlindaákvæði stjórnarskrárinnar sem einna mest vinna hafi verið lögð í. Rúmlega 41 þúsund manns hafa skráð sig í undirskriftasöfnun þar sem þess er krafist að stjórnarskráin sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 verði lögfest. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hyggst leggja fram fjögur frumvörp til stjórnskipunarlaga í nóvember með breytingartillögum að stjórnarskránni.

Yfirvegaðar og afmarkaðar breytingar koma til greina

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist ekki átta sig á hversu breið samstaða náist um breytingarnar á Alþingi: 

„Maður finnur fyrir því að í hópi formanna eru mjög skiptar skoðanir um ýmis atriði, kannski minni ágreiningur um önnur.“

Sagði Bjarni Benediktsson í viðtali fyrir utan Ráðherrabústaðinn á föstudaginn. Hann segir ekki koma á óvart að almenningur vilji breytingar á stjórnarskránni en sér sýnist ágreiningur helst vera um það hvort gera eigi grundvallarbreytingar á henni. Hann segist ekki talsmaður þess og að hann hafi aldrei fundið fyrir miklum þrýstingi frá kjósendum fyrir Alþingiskosningar 2013, 16 og 17. Mestu skipti að sem breiðust samstaða náist. 

„Ég held hins vegar að yfirvegaðar afmarkaðar breytingar komi til greina. Og hef líka verið þeirrar skoðunar á stjórnarskráin sé skjal sem við eigum að eiga saman. Og menn eigi ekki að þrýsta í gegn breytingum ef ekki hefur tekist nægileg samstaða.“

Ekki rót vanda sem glímt er við í dag

Máli skipti að vanda sig og fara að því sem stendur í stjórnarskránni um hvernig eigi að breyta henni. 
  
„Ég sé ekki að það liggi í stjórnarskránni rót einhvers vanda sem við erum að glíma við í dag.“

Eru einhverjar sérstakar greinar sem að þú vildir samþykkja á þessu kjörtímabili?

„Ja, við höfum lagt einna mesta vinnu í auðlindaákvæðið. Og ég held að það sé ákvæði sem við höfum talað um í, ætli það séu ekki að verða komin núna 25 ár síðan að það rataði inn í stjórnarsáttmála hjá ríkisstjórn að koma slíku ákvæði inn í stjórnarskrá. Og mér finnst nú orðið tímabært að við finnum einhverja lendingu í því. En það er samt sem áður einmitt dæmi um ákvæði sem að mikill ágreiningur virðist ennþá vera um.“

41 þúsund skrifað undir

Undirskriftasöfnuninni Nýju stjórnaskrána strax lýkur á miðnætti á island.is. Stefnt er að því að undirskriftalistinn verði afhentur forsætisráðherra á morgun. Skömmu fyrir hádegi höfðu 41.105 manns skrifað undir. Með nýju stjórnarskránni er átt við frumvarp stjórnlagaráðs til stjórnskipunarlaga sem samþykkt var í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir átta árum upp á dag á morgun.