Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

40 bóluefni við Covid-19 til skoðunar

Mynd:  / 
160 lyf sem tengjst Covid-19 eru nú til skoðunar hjá Evrópsku lyfjastofnuninni sem Ísland á aðild að. Þar af eru um 40 bóluefni, þrjú þeirra eru nú prófuð á manneskjum í tugþúsundavís. Ef það gegnur vel fá þau markaðsleyfi og forgangsstýrð bólusetning getur hafist um allan heim á næsta ári að mati sérfræðinga.

Heimsbyggðin bíður nú eftir bóluefni. Gangverk heimsins fer ekki af stað aftur fyrr en nægilega margir hafa verið bólusettir við Kórónuveirunni. Þangað til lifum við við takmarkanir í flestum daglegum athöfnum.
Bóluefnin sem lengst eru komin eru frá lyfjarisunum AstraZeneca, Johnson&Johnson og Pfeizer.

Rúna Hauksdóttir Hvannberg, forstjóri Lyfjastofnunar segir að allt sé í fullum gangi núna.

„Nákvæmlega hver staðan er þá er hún sú að það eru þessi þrjú lyfjafyrirtæki með bóluefni í áfangamati og það eru fleiri að koma og líklegast verða þetta um 8 lyf, ef maður ætlar að vera raunsær sem á endanum verða svo raunveruleg bóluefni sem verða markaðssett.“

Jakob Falur Garðarsson er framkvæmdastjóri Frumtaks, sem eru samtök frumlyfjaframleiðenda. Hann segir að gangurinn sé mjög hraður en óþolinmæðin skiljanlega mikil. Venjulega taki það 10-15 ár að þróa bóluefni en nú séu aðeins 6 mánuðir liðnir frá því að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO,  lýsti yfir heimsfaraldri vegna Covid-19.

„Á endanum, og á miklu miklu skemmri tíma en nokkru sinni fyrr þá mun okkur takast að finna bóluefni sem við munum þá í sameiningu gera aðgengilegt fyrir alla.“

Náið og gott samstarf er á milli Evrópsku lyfjastofnunarinnar og þeirrar bandarísku. Þær skiptast á öllum sínum upplýsingum til að stytta biðina.
Rúna segir að lyf gegn kórónuveirunni séu í algörum forgangi.  

„Við stöndum hér í rúmlega miðjum október. Ég myndi segja að byrjun árs sé mjög óraunhæft. Ég geri ráð fyrir að það verði bóluefni tiltækt á næsta ári. Ég held að það sé það sem fólk er að horfa í.“

Jakob Falur segir það aldrei hafa gerst áður að fyrirtæki í samvinnu við stjórnvöld og lyfjastofnanir og vísinda- og rannsóknarstofnanir vinni allar saman að einu markmiði.

„Það eru allir að deila upplýsingum hér og annars staðar allan sólahringinn meðal allra þeirra sem eru að reyna að svara því hvernig við búum til þetta bóluefni.“

Rúna bendir á að öll vinna við þetta sé af hinu góða.

„Það er alla vegana verið að setja allt í það núna að búa til þetta bóluefni því ef þetta kemur aftur í einhverri mynd þá er miklu auðveldara að fínstilla bóluefnið eins og gert er á hverju ári við inflúensubóluefni á hverju ári til að bregðast við þessu. Þetta er langhlaup og maður verður að hafa svolítið úthald í það.“