Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

380 unglingar í Árbæjarskóla í sóttkví

19.10.2020 - 21:42
Mynd með færslu
 Mynd: Árbæjarskóli
Að minnsta kosti fjórir árgangar í Árbæjarskóla í Reykjavík eru komnir í sóttkví þar sem þau voru útsett fyrir kórónuveirusmiti. Skólastjórnendur tilkynntu foreldrum um þetta í kvöld. 380 nemendur eru í sóttkví á unglingastigi og á bilinu 200 til 250 nemendur á yngsta stigi eru í úrvinnslusóttkví

Þetta staðfestir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla og frístundasviðs Reykjavíkurborgar í samtali við fréttastofu. 

Smit kom upp í nemendahóp skólans og þótti tilefni til að setja alla árganga unglingastigs í sóttkví vegna þess, þar sem ekki var hægt að kortleggja nákvæmlega blöndun á milli hópa í matsal skólans. Sóttkví nemendanna nær til fimmtudagsins þegar nemendum gefst kostur á að fara í sýnatöku. Foreldum er bent á að smitrakningarteymið muni senda nánari upplýsingar til foreldra á næstu dögum.