Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vissi að hún myndi senda fjölda fólks í sóttkví

Mynd: - / RÚV

Vissi að hún myndi senda fjölda fólks í sóttkví

18.10.2020 - 17:11
Það er óhætt að segja að árið hafi verið viðburðarríkt fyrir fótboltakonuna Andreu Rán Snæfeld Hauksdóttur. Hún bar með sér kórónuveiruna til Íslands í júní sem setti Íslandsmótið í fótbolta í uppnám.

Andrea kom sterk til baka eftir veikindin og hefur spilað virkilega vel fyrir topplið Breiðabliks í ár og var á dögunum valin í A-landslið Íslands fyrir leikinn mikilvæga við Svíþjóð 27. október. Við settumst niður með Andreu.

Andrea Rán er 24 ára og hefur spilað allan ferilinn með Breiðabliki. Hún hefur hins vegar síðustu ár líka spilað með háskólaliði University of South Florida en kom heim til Íslands í júní.

„Ég kem heim og held að allt sé í góðu lagi. Greinist svo með COVID-19 nokkrum dögum síðar eftir að ég heyri að vinkona mín sem ég bjó með úti var með COVID-19. Ég var ekki með nein einkenni og búin að fá grænt ljós að ég mætti ferðast. Að fá símtalið sem sumir Íslendingar eru búnir að fá, það er ákveðið áfall að sjá númerið á símanum, þetta eru ekki skilaboð eða eitthvað frá Heilsuveru. Þetta er símtal og þetta er númer. Maður þekkir ekki þetta númer en veit nákvæmlega hvað er að fara að gerast," segir Andrea Rán um símtalið örlagaríka. 

Andrea hafði spilað tvo leiki með Blikum strax eftir heimkomuna til Íslands og því fór Blikaliðið allt í sóttkví sem og KR. Veikindin höfðu því áhrif á Íslandsmótið.

Hún segist strax hafa áttað sig á því hvað myndi gerast og að þetta myndi hafa áhrif á Íslandsmótið. „Ég vissi nákvæmlega hvað var að fara að gerast og hvað var í gangi. Mótið yrði bara sett í bið. Ég vissi það alveg. Ég vissi að ég var að fara að senda fjöldan allan af fólki í sóttkví," segir Andrea og bætir við að erfitt hafi verið að bíða eftir niðurstöðum frá því fólki sem hún hafði hitt. Hún segist varla hafa náð að sofa á meðan hún beið eftir þeim niðurstöðum en alls greindust þrír einstaklingar með COVID-19 sem hún hafði hitt. 

„Ég átti erfitt með að heyra að þessir þrír sem ég smitaði fengu jákvætt. Mér fannst það bara hræðileg," segir Andrea.

Kórónuveiran lagðist ekki eins illa á Andreu eins og á marga aðra. Hún kom því á fullum krafti aftur inn í Íslandsmótið og hefur spilað vel á leiktíðinni. Hún segir það hafa verið erfitt að snúa aftur út í samfélagið eftir veikindin og hafði áhyggjur af því hvernig henni yrði tekið. Hún var þó staðráðin í því að þakka fyrir stuðninginn sem hún fékk með góðri frammistöðu á vellinum. „Ég hugsaði með mér að ég gæti sýnt þeim á vellinum, náð einhverjum árangri og hætta aldrei. Sama ef ég yrði þreytt, að gefast ekki upp og halda bara áfram," segir Andrea um frammistöðu sína með Breiðablik eftir að hún snéri aftur á völlinn. 

Breiðablik hefur farið á kostum í sumar og trónir á toppi Pepsi Max deildarinnar. Andrea segir liðið hafa sýnt mikinn styrk þegar þær þurftu að fara í sóttkví. „Ég held að allt sem við höfum gengið í gegnum hafi þjappað hópnum saman. Við lendum í sóttkví og stelpurnar fóru ekki í fýlu eða misstu móðinn eða urðu sárar að vera heima heldur tóku þær þessu með stæl og gerðu það sem átti að gera. Gerðu æfingarnar og við vorum bara saman í þessu," segir Andrea.

Og frammistaða Andreu í sumar skilaði henni í síðustu viku sæti í A-landsliði Íslands fyrir leikinn mikilvæga á móti Svíþjóð í undankeppni EM 27. október. Sjálf vissi hún ekki að það væri búið að velja hópinn og fór að fá skilaboð þar sem henni var óskað til hamingju. Hún athugaði þá sjálf málið og sá að hún hafði verið valin í landsliðshópinn. 

„Það var mikil gleði sem tók yfir. Þetta skiptir mig gríðarlega miklu máli, það hefur alltaf verið stefnan að ná í A-landsliðið og það skiptir ekki máli hvert mitt hlutverk með landsliðinu er. Hvort sem það er að sitja á bekknum og gera aðra leikmenn betri eða fá að spila. Það eina sem skiptir máli er að vinna þennan leik og það er markmiðið. Mitt hlutverk verður mikilvægt sama hvað það er og ég veit að ég ætla að gera það 120%," segir Andrea að lokum.