Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Við undirbúum allar mögulegar sviðsmyndir“

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Fundi farsóttarnefndar og viðbragðsstjórnar Landspítala lauk rétt fyrir hádegi. Anna Sigrún Baldursdóttir aðstoðarmaður Páls Matthíassonar forstjóra Landspítala sagði eftir fundinn að staðan væri góð á spítalanum þrátt fyrir mikið álag. Starfsfólk búi að reynslunni síðan í vor og þróun smita undanfarna daga gæti bent til þess að faraldurinn sé að hægja á sér.

„Það sem fram kom er að almennt gengur vel á spítalanum, þetta gengur allt eins og við viljum,“ sagði Anna Sigrún eftir fundinn.  „Ég held að allir bindi vonir við að þróunin undanfarna daga sé merki um að við séum að ná taki á faraldrinum.“

Anna Sigrún segir að vel megi búast við að innlögnum vegna COVID-19 fari að fjölga á næstunni, rúm vika er síðan stór hópsmit greindust og fólki versni gjarnan á annarri viku eftir smit. „Við undirbúum allar mögulegar sviðsmyndir,“ segir Anna Sigrún.