Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Veggur við hegningarhúsið lagður undir stjórnarskrá

18.10.2020 - 16:06
Mynd: RÚV / Skjáskot
Hópurinn sem berst fyrir nýrri stjórnarskrá hefur tekið yfir vegg sem er við hegningarhúsið á Skólavörðustíg. Þar tóku menn til óspilltra mála og máluðu slagorð til stuðnings málefninu. „Við eigum nýja stjórnarskrá. Klárum málið - skrifum undir,“ skrifar Katrín Oddsdóttir, einn af forsvarsmönnum undirskriftasöfnunarinnar.

Björg Thorarensen, lagaprófessor við Háskóla Íslands, sagði í kvöldfréttum RÚV í gær að ekki væri til ný stjórnarskrá en það væru til tillögur að nýrri stjórnarskrá sem voru samþykktar vorið 2012 af stjórnlagaráði.

Búið væri að hafna því að samþykkja heildstæða stjórnarskrá á grundvelli stjórnlagaráðs. „Þess vegna tel ég skynsamlegast að gera eins og verið er að gera núna, að taka einstaka þætti sem fjallað er um í tillögum stjórnlagaráðs.“

Katrín sagði í fréttum RÚV að undirskriftasöfnunin snerist um drög stjórnlagaráðs og að þau yrðu lögð til grundvallar.  Hún sagði að þingkosningar snerust sjaldnast um stjórnarskrármálið og að þjóðin hefði bara einu sinni verið spurð með einangruðum hætti um málið. „Hún svaraði með skýrum hætti, þau sem mættu á kjörstað.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV