Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Umhverfisstofnun geldur varhug við knatthúsi Hauka

18.10.2020 - 10:35
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd af vef Hauka - RÚV
Umhverfisstofnun hefur óskað eftir frekari gögnum frá Hafnarfjarðarbæ vegna fyrirhugaðs knatthúss sem til stendur að reisa á mörkum friðlands Ástjarnar í Áslandi. Stofnunin telur óljóst hvaða áhrif framkvæmdin mun hafa á vatnafar Ástjarnar og það sé mikilvægt að meta hvaða áhrif jarðrask vegna knatthúss hafa á vatnsstöðu og lífríki tjarnarinnar.

Til stendur að hefja framkvæmdir við nýtt knatthús Hauka í byrjun næsta árs. Gert er ráð fyrir að kostnaðurinn við húsið nemi um 2 til 2,7 milljörðum króna. Í breytingu á deiliskipulagi er  gert ráð fyrir lóðum undir íbúðir sem eiga að rísa á núverandi íþróttasvæði Hauka í íbúðasvæði og byggja í staðinn fjölnota knatthús.

Umhverfisstofnun kallar eftir frekari gögnum um framkvæmdina í umsögn sinni þar  sem margt sé óljóst.  Í umhverfisskýrslu um deiliskipulagsbreytingu komi fram að breytingin hafi engin áhrif á vatnafar svæðisins en Umhverfisstofnun telur þá niðurstöðu vera óljósa hvað Ástjörn varðar.  Þá telur stofnunin að mikilvægt að fjallað sé um áhrif hljóð-og loftmengunar. 

Stofnunin bendir á að Ástjörn sé nú þegar undir miklu álagi vegna nálægðar við þéttbýlis. Í umhverfisskýrslu bæjarins komi fram að umhverfisáhrif ásýndar séu óviss og háð útfærslu. Stofnunin telur að búast megi við að mannvirki muni hafa varanleg áhrif á ásýnd svæðisins og þar af leiðandi upplifun þeirra gesta sem fara um fólkvanginn og friðlandið. Áhrifin kunni því að vera umtalsverð og því sé mikilvægt að útfærslur séu skýrar til að draga úr því.

Umhverfisstofnun nefnir sömuleiðis að hraunið í kring falli undir lög um náttúruvernd. Forðast beri röskun þeirra náttúrufyrirbæra s sem falli undir þau lög nema „brýna nauðsyn beri til og ljóst að aðrir kostir séu ekki fyrir hendi.“ Aðeins mjög ríkir almannahagsmunir geti réttlætt röskun og þá fyrst og fremst brýnir almannahagsmunir.

Ef breyting á deiliskipulagi geri ráð fyrir röskun á hrauni þurfi að rökstyðja þá ákvörðun og gera grein fyrir öðrum kostum sem skoðaðir hafa verið sem mögulegir valkostir og ástæðum þess að þeir urðu ekki fyrir valinu.

Umhverfisstofnun bendir einnig á að Ástjörn sé svokallað laukvatn. Slík vötn hafi mjög hátt verndargildi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV