Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Þúsundir kvenna mótmæltu Trump og dómaraefni hans

epa08748356 Demonstrators dressed as characters from the dystopian tragedy television series 'Handmaid's Tale' gather to voice their opposition to the confirmation of Judge Amy Coney Barrett to be a Supreme Court Justice, outside the Supreme Court, during the Senate Judiciary Committe​e confirmation hearing on Capitol Hill in Washington, DC, USA, 15 October 2020.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þúsundir Bandaríkjamanna - einkum Bandaríkjakvenna - tóku þátt í pólitískum göngum og fundum í gær, sem voru í senn mótmæli gegn gegn Donald Trump, Bandaríkjaforseta og baráttufundur fyrir kvenréttindum, þar sem sú fyrirætlan forsetans og Repúblikanaflokksins að skipa hina íhaldssömu Amy Coney Barrett hæstaréttardómara var fordæmd.

Afstaða Trumps til kvenna fordæmd

Mótmælt var í nokkrum borgum, en fjölmennasti fundurinn var í höfuðborginni, Washington DC. Konur blésu til mikilla mótmæla skömmu eftir embættistöku Trumps árið 2017, þar sem afstaða hans og framkoma í garð kvenna var í brennidepli. Um þrjár milljónir tóku þátt í þeim mótmælum, en aðeins brot af þeim fjölda svaraði kallinu í gær.

Skipuleggjendur segja það fyrst og fremst skýrast af kórónaveirufarsóttinni, sem enn geisar af miklum þunga í Bandaríkjunum. Rachel O'Leary Carmona, forystukona Kvennagöngunnar amerísku, segir að embættistíð forsetans hafi byrjað með mótmælum kvenna, „og nú mun hún enda með atkvæðum kvenna."

 

epa08748349 A demonstrator joins others dressed as characters from the dystopian tragedy television series 'Handmaid's Tale', to voice their opposition to the confirmation of Judge Amy Coney Barrett to be a Supreme Court Justice, outside the Supreme Court, during the Senate Judiciary Committe​e confirmation hearing in Washington, DC, USA, 15 October 2020.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA

 

Mótmæla skipan íhaldskonu í stað kvenréttindafrömuðar

Sem fyrr segir var fyrirhuguð skipun Amyar Coney Barrett í stöðu hæstaréttardómara harðlega gagnrýnd í mótmælunum. Barrett þykir afar íhaldsöm í skoðunum, ekki síst í öllu er lýtur að jafnrétti og kvenréttindum og því algjör andstæða dómarans sem henni er ætlað að taka við af, Ruth Bader Ginsberg, ötulli baráttukonu fyrir réttindum kvenna, sem lést í hárri elli fyrir skemmstu.

Ungar konur voru í miklum meirihluta í hópi mótmælenda. Langflestar báru grímur fyrir vitum sér og margar voru klæddar búningum eins og þeim sem kúguðum almúgakonum er gert að klæðast í sjónvarpsþáttunum Sögu þernunnar, sem gerðir er eftir samnefndri skáldsögu Margaret Atwood. Aðrar settu upp svokallaðan píkuhatt, einkennishöfuðfat Kvennagöngunnar amerísku, sem vísar til þeirrar fullyrðingar forsetans að hann geti leyft sér að grípa um klof kvenna hvenær sem honum sýnist í skjóli frægðar sinnar.