Sendi 78 tölvupósta en fékk aldrei gjöf frá vini sínum

18.10.2020 - 14:01
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Yfirskattanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu að tollyfirvöld hafi ekki borið sig rétt að þegar þau afgreiddu gjöf sem maður fékk frá vini sínum á Bretlandi fyrr á þessu ári. Maðurinn sendi 78 tölvupósta til tollyfirvalda til að reyna að fá gjöfina afgreidda en án árangurs og að endingu var gjöfin send aftur til Bretlands. Þetta er í annað sinn sem maðurinn kærir ákvörðun tollyfirvalda til yfirskattanefndar

Í úrskurðinum er þrautaganga mannsins rakin við að reyna fá gjöfina. Hann er sagður hafa sent 78 tölvupósta til tollyfirvalda vegna málsins og af hálfu þeirra hafi þess verið krafist að hann legðu fram reikning vegna gjafarinnar eða óskaði eftir verðmati á henni.  

Maðurinn benti á að hvergi í tollalögum væri kveðið á um að hann þyrfti að óska eftir verðmati heldur ætti tollstjóri að ákvarða álagningu gjalda ef ekki væri til staðar reikningur. Í öllum sínum tölvupóstum hafi hann óskað eftir því að tollstjóri ákvarðaði álagningu samkvæmt lögum en því hafi alltaf verið hafnað.  

Maðurinn sagði fyrst að gjöfin væri upp á tíu þúsund krónur en síðar mat maðurinn gjöfina á 28 þúsund krónur. Í ákvörðun yfirskattanefndar kemur fram að ekkert komi fram í tölvupóstum mannsins á hverju þær upphæðir voru byggðar. 

Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að þótt ekki hafi borist formleg beiðni frá manninum um að tollgæslan tæki gjöfina til verðmats komi það viðhorf fram í tölvupóstum hans „að vísu vafið í aðfinnslur um störf tollyfirvalda.“ Hann hafi bara viljað fá gjöfina tollafgreidda og væri síðan reiðubúinn að takast á við yfirvöld um þá ákvörðun.

Yfirskattanefnd telur að tollyfirvöld hafi ekki borið sig rétt að við afgreiðslu á gjöfinni - þau hefðu átt að taka afstöðu til tollverðs af hálfu mannsins og ákvarða aðflutningsgjöld samkvæmt því eða áætla verð ef þau féllust ekki á uppgefið verðmæti.  

Er því beint til tollyfirvalda að þau gæti að þessum sjónarmiðum komi til þess að maðurinn fái aftur gjöfina frá vini sínum á Bretlandi.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi