Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samtvinna landbúnað og náttúruvernd

18.10.2020 - 20:15
Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV/Landinn
„Við þurfum að hafa eitthvað svona haldbært í höndunum. Það er ekki nóg að segja að allt sé bara í góðu standi ef maður getur ekki sýnt fram á það,“ segir Þóra Kópsdóttir bóndi á Ystu-Görðum á Snæfellsnesi sem lætur rannsaka áhrif beitar á birkiskóg í hennar landi.

„Við vitum það sjálf að skógurinn er í bullandi uppgangi þrátt fyrir að hann sé beittur en það sem skiptir máli er að nú er ekki lengur nein vetrarbeit. Hérna áður fyrr þegar menn vantaði hey og beittu á veturna þá fór það illa með skóginn,“ segir Þóra.

Umhverfisverkefnið LOGN

Landinn kynnti sér umhverfisverkefnið LOGN, eða Landbúnaður og Náttúra. Þóra á Ystu-Görðum er, ásamt fimm öðrum bændum á Mýrum og Snæfellsnesi, er þátttakandi í verkefninu sem er kostað af umhverfisráðuneytinu en leitt af Ráðgjafamiðstöð Landbúnaðarins.

Landbúnaður og náttúruvernd fara saman

„Þetta verkefni byggist á því að bændur stundi sinn landbúnað en leggi líka áherslu á náttúruvernd og að það styðji hvort annað. Með því að huga að náttúruvernd geta bændur jafnvel fengið betra verð fyrir sínar afurðir, þeir nýta landgæðin betur og skila landinu áfram til næstu kynslóða í betra standi,“ segir Sigurður Torfi Sigurðsson, verkefnisstjóri LOGN. Aðspurður um hvort það þurfi að leggja eitthvað sérstaklega að bændum að huga að náttúruvernd þar sem þeirra hagsmunir séu augljósir, segir Sigurður að vissulega þekki hann engan bónda sem ekki vilji ganga vel um landið. „Stundum vantar hins vegar kannski smá þekkingu. Þessir bændur sem taka þátt í verkefninu vilja nýta sér aðgang að slíkri þekkingu til að gera enn betur á sínu landi.“

gislie's picture
Gísli Einarsson