Nýgengi smita nú hærra hér en á Spáni

18.10.2020 - 08:55
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er nú hærra á Íslandi en á Spáni, samkvæmt vef sóttvarnastofnunar Evrópu. Stofnunin telur með þau smit sem greinast á landamærunum. Fimm Evrópulönd eru með hærra nýgengi en Ísland og staðan er verst í Tékklandi. Þar er nýgengið nú komið yfir 700 smit á hverja hundrað þúsund íbúa síðasta hálfa mánuðinn.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, hefur ítrekað sagt á upplýsingafundum að faraldurinn sé í örum vexti í Evrópu. Það sýna líka tölur yfir nýgengi á vef sóttvarnastofnunar Evrópu; þær eru nánast allar á uppleið. 

Nýgengi smita hér á landi er nú tæplega 314 samkvæmt vef stofnunarinnar. Það er 312 á Spáni. Aðeins Tékkland, Belgía, Holland, Bretland og Frakkland eru með hærra nýgengi en Ísland miðað stöðuna eins og hún var í gær. Í Katalóníu er veitingastöðum aðeins leyft að sinna heimsendingum og líkamsræktarstöðvum og menningarstofnunum hafa verið settar þröngar skorður sem og búðum og verslunarmiðstöðvum. 

Víða á meginlandi Evrópu hefur verið gripið til harðra aðgerða. Útgöngubann hefur tekið gildi í níu borgum Frakklands þar sem íbúar verða sektaðir ef þeir eru á ferli frá klukkan níu á kvöldin til sex á morgnanna.  Búist er við að hertar aðgerðir verði tilkynntar á Ítalíu í dag eftir metfjölda smita á laugardag.

Á vef BBC kemur fram að stjórnvöld í Slóvakí vilji taka sýni úr öllum eldri en tíu ára eftir að smitum fór að fjölga hratt. Þar hafa mótmælendur látið í ljós óánægju sína með hertar aðgerðir stjórnvalda.  

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur hvatt fólk til að halda sig heima til að reyna hefta útbreiðslu veirunnar. Þar hafa hertar aðgerðir verið samþykktar sem fela meðal annars í sér meiri grímuskyldu og börum verður lokað fyrr en venjulega. Talsmaður Merkel sagði hana þó hafa viljað ganga lengra. Jafnvel í Svíþjóð hefur þeim möguleika verið velt upp að grípa til harðari aðgerða. „Það eru of margir sem fylgja ekki reglum,“ sagði Stefan Löfven, forsætisráðherra landsins.

Í umfjöllun Guardian kemur fram að þótt nú greinist tvisvar til þrisvar fleiri smit í Evrópu á degi hverjum miðað við mars og apríl séu dauðsföll af völdum sjúkdómsins fimm sinnum færri nú en þá.    

Hans Kluge, sem fer með málefni Evrópu fyrir Alþjóðaheilbrigðisstofnunina WHO, sagði á fundi á fimmtudag að þetta mætti rekja til þess að fleiri sýni væri tekin nú en þá, veiran væri útbreiddari meðal ungs fólks auk þess sem læknar væru nú betur í stakk búnir til að takast á við erfið tilfelli. 

Samkvæmt WHO gætu einföld ráð, eins og að vera með grímu og samkomutakmarkanir, bjargað 281 þúsund mannslífum í Evrópu fyrir 1. febrúar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi