Ljúfsárt að ljúka loks við 90 metra Njálurefilinn

Mynd: Guðmundur Bergkvist / Fréttir

Ljúfsárt að ljúka loks við 90 metra Njálurefilinn

18.10.2020 - 19:20

Höfundar

Síðasta sporið var saumað í rúmlega níutíu metra langan Njálurefil á dögunum og saumakonurnar, sem hafa helgað sig verkefninu í tæp átta ár, þurfa nú að snúa sér að lopapeysunum.

Á miðöldum voru svokallaðir reflar notaðir til að skreyta hýbýli fólks og kirkjur landsins. Tvær konur á Hvolsvelli vildu dusta rykið af þessu gamla handverki og ákváðu á endanum að sauma Brennu-Njálssögu á hördúk eftir teikningum Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur.

Fyrstu sporin voru saumuð í byrjun febrúar 2013, en gert var ráð fyrir að saumaskapurinn tæki tíu ár.

Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir og Lovísa Herborg Kristjándóttir eiga stóran þátt í reflinum.

- Fannst ykkur þetta ekkert óyfirstíganlegt þegar þið byrjuðuð á þessu verki?

„Við leyfðum þessari hugsun bara ekkert að komast að, þetta var bara svo spennandi og skemmtilegt og ofboðslega gaman,“ segir Gunnhildur Edda.

Hópur kvenna á svæðinu hittist vikulega og saumaði hið gamla refilspor á hördúkinn en fólk á öllum aldri, og víðs vegar að úr heiminum, lagði hönd á plóg.

Sjö árum og sjö mánuðum síðar voru svo síðustu sporin saumuð í rúmlega níutíu metra langan refilinn og honum var að lokum rúllað endanlega upp. Herborg og Gunnhildur segja að það hafi verið ljúfsárt að leggja lokahönd á refilinn.

„Það var náttúrulega, æ ég veit ekki hvað maður á að segja, tregafull stund.
Bæði stolt og sárt svolítið.. eftirsjá,“ segir Lovísa Herborg.

Ríkisstjórn Íslands veitti á dögunum Rangárþingi eystra 25 milljón króna styrk til að koma Njálureflinum í varanlegt sýningarhúsnæði.

„Ég segi alltaf að það geri sér enginn fyrir því í dag hversu mikil verðmæti við vorum að skapa,“ segir Lovísa. „Þetta á náttúrulega eftir að lifa með okkur næstu aldirnar og er eitthvað sem við erum stoltar af.“

-Og hvaða verkefni tók við? Það hlýtur að vera erfitt að finna sér verkefni eftir svona stórt verk?

„Jájá, ætli það verði ekki endalausar lopapeysur,“ segja þær hlæjandi.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Njálurefillinn tilbúinn þremur árum á undan áætlun

Bókmenntir

25 milljónum veitt í að varðveita Njálurefilinn

Rangárþing eystra

Njálurefillinn hálfnaður

Menningarefni

Forn útsaumsaðferð sameinar konur