Hótelstjóri á daginn, dragdrottning á kvöldin

Mynd: RÚV / RÚV

Hótelstjóri á daginn, dragdrottning á kvöldin

18.10.2020 - 08:58

Höfundar

„Ég man bara þegar ég var krakki að þetta var einn af uppáhalds leikjunum mínum, fara í fermingarkjóla af frænkum mínum. Ég fann mér alltaf tilefni til að vera með leikrit, stelast í brjóstahaldara og eitthvað svona,“ segir Hákon Guðröðarson, oftast kallaður Hákon Hildibrand.

Landinn kíkti í kaffi til Hákons á dögunum. Hákon er hótelstjóri á Hótel Hildibrand á Neskaupsstað en auk þess rekur fjölskylda hans Beitiskúrinn. Hákon hefur verið dragdrottning í mörg ár og áður en hann flutti aftur til Neskaupsstaðar fyrir nokkrum árum síðan þá hafði hann dragið að atvinnu. „Einhvern tímann hefði ég verið kallaður crossdresser, klæðskiptingur,“ segir hann en segist þó ekki skilgreina sig þannig. „Nei, ég er dragdrottning. En fólk hefur alveg spurt. Einu sinni gekk sú kjaftasaga í bænum að ég væri á leið í kynleiðréttingu og mér fannst það rosa fyndið. Alveg já ég ætla láta breyta mér í gamla konu,“ segir Hákon hlæjandi en persónur hans eru yfirleitt vel yfir miðjum aldri. „En ég hef oft sagt að ég hef íhugað það að verða gömul kona, ætla verða hann amma mín. En í millitíðinni vil ég bara vera karlmaður þegar ég er karlmaður og svo dragdrottning þess á milli,“ segir Hákon sem er svo sannarlega með mörg járn í eldinum og ýmsar persónur, svo sem þær Málfríði og Snæfríði sem láta ljós sitt skína í Landanum í kvöld. 

Landinn hefst klukkan 19:40 en þar kynnum við okkur lagningu ljósleiðara á hálendinu, umhverfisverkefni bænda, ferðalag nýrrar Krýsuvíkurkirkju og hvernig skuli búa til Landnámsskála auk þess að hitta Hákon Hildibrand.

Tengdar fréttir

Sjónvarp

Við fæðumst öll nakin og restin er drag

Leiklist

„Þú þarft að eigna þér sviðið mitt“