Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Hjálmar - Yfir hafið

Mynd: Hjálmar / Hjálmar

Hjálmar - Yfir hafið

18.10.2020 - 15:00

Höfundar

Hljómsveitin Hjálmar gaf nýlega út sína tíundu breiðskífu, sem ber heitið Yfir hafið en hún er endurgerð af plötu hljómsveitarinnar Unimog sem kom út fyrir nokkrum árum og lenti milli skips og bryggju.

Sumir lagahöfundar gefast ekki upp á lögunum sínum eins og útgáfa þessarar plötu vitnar um. Lögin komu áður út með hljómsveitinni Unimog árið 2014. Unimog var skipuð þeim Steina, Kidda og Sigurði úr Hjálmum ásamt Ásgeiri Trausta og samin á tónleikaferðalagi hins síðastnefnda um heiminn. Platan kom síðan út á skrítnum tíma þegar þeir voru á annarri tónleikaferð með Ásgeiri og var kastað út í kosmósið án nokkurrar eftirfylgni.

Hjálmum fannst kjörið að endurvinna plötuna því það voru mjög fáir sem kveiktu á henni á sínum tíma og lögin á plötunni væru of góð til að gleymast. Því var ákveðið að gefa alla plötuna út undir nafni Hjálma og platan tekin upp þegar Hjálmar fóru tónleikahringinn í kringum landið og áttu tvo frídaga fyrir austan. Það var síðan talið í, í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði og allir grunnar teknir upp á tveimur dögum og svo kláraði sveitin vinnuna í Hljóðrita og á Flateyri.

Eins og gefur að skilja verður kannski erfitt að fylgja plötunni eftir með tónleikahaldi í þetta skipti út af COVID en út er hún komin og er plata vikunnar á Rás 2. Hún verður spiluð í heild sinni eftir 10-fréttir í kvöld auk þess að vera aðgengileg í spilara með kynningum þeirra Þorsteins Einarssonar og Sigurðar Guðmundssonar sem skýra út tilurð þessarar sérstöku plötu og laga hennar.   

 

 

Mynd með færslu
Hjálmar - Yir hafið