
Hertar aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu til 3. nóvember
Reglugerðin sjálf gildir til 10.nóvember og þar er meðal annars kveðið á um tveggja metra regluna, aukna grímuskyldu og að samkomutakmarkanir skuli miðast við 20 manns um allt land. Þetta á þó ekki við um útfarir þar sem leyfilegur fjöldi er 50 manns.
Veigamesta breytingin snýr að höfuðborgarsvæðinu því íbúar utan höfuðborgarsvæðisins búa við meira frjálsræði. Þeir geta stundað íþróttir með snertingu á vegum ÍSÍ en engir áhorfendur verða leyfðir. Þetta er bannað á höfuðborgarsvæðinu til 3. nóvember en reglugerðin í heild sinni fellur úr gildi 10. nóvember.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins geta þó stundað íþróttir í skipulögðum hópíþróttatíma þar sem þátttakendur eru skráðir. Þeir verða þó að virða 2 metra regluna, mega ekki deila búnaði meðan á æfingu stendur og sótthreinsa verður allan búnað á milli tíma. Þá er skólasund sömuleiðis ekki leyfilegt.
Að öðru leyti virðist reglugerðin að mestu leyti vera í samræmi við tillögu sóttvarnalæknis sem kynnt var á föstudag. Þar kom fram að faraldurinn væri að mestu leyti bundinn við höfuðborgarsvæðið en þó væri nauðsynlegt að gæta varúðar því smit væru að greinast úti á landi.
Reglugerðirnar tvær, fyrir annars vegar takmarkanir á farsóttum og skólastarfi er hægt að nálgast hér. Þá er hægt að kynna sér helstu reglur hér að neðan en meginmunurinn snýr að íþróttastarfi. Ljóst er að stóru boltaíþróttirnar þrjár; handbolta, fótbolti og körfubolti þurfa að taka erfiðar ákvarðanir en reglugerðin þýðir að það verður erfitt að ljúka Íslandsmótinu í knattspyrnu hjá körlum og konum.
Íþróttir og keppnir utan höfuðborgarsvæðisins:
Þrátt fyrir 2 metra nálægðartakmörk eru snertingar heimilar milli íþróttafólks á æfingum og í keppnum á vegum Íþrótta- og ólympíusambands Íslands (ÍSÍ), en virða skal 2 metra regluna í búningsklefum og á öðrum svæðum utan keppni og æfinga. Þrátt fyrir 20 manna fjöldatakmörk er allt að 50 einstaklingum heimilt að koma saman á æfingum og í keppnum á vegum ÍSÍ. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum.
Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
Höfuðborgarsvæðið
Íþrótta og heilsuræktarstarfsemi: Heimilt er með skilyrðum að standa fyrir og stunda íþrótta- og heilsuræktarstarfsemi ef um er að ræða skipulagða hóptíma þar sem allir þátttakendur eru skráðir. Við þessar aðstæður er skylt að virða 2 metra regluna, þátttakendur mega ekki skiptast á búnaði meðan á tíma stendur og allur búnaður skal sótthreinsaður á milli tíma. Sameiginleg notkun á búnaði sem er gólf- loft- eða veggfastur, s.s. á heilsuræktarstöðvum, er óheimil.
Heimildir fyrir íþróttastarfi, æfinga og keppna á vegum ÍSÍ gilda ekki á höfuðborgarsvæðinu.
Íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf barna á leik- og grunnskólaaldri, þar með talið skólasund, sem krefst meiri snertingar og frekari blöndunar hópa en í skólastarfi, er óheimilt á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Reykjavík, á Seltjarnarnesi, í Mosfellsbæ, Kjósarhreppi, Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi.