Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Guðni: Ný reglugerð gerir okkur erfitt fyrir

18.10.2020 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, segir að þau hafi vitað í hvað stefndi þegar tilmæli sóttvarnalæknis voru kynnt fyrir helgi. Nú þurfi að fara yfir stöðuna í mótamálum sambandsins, setjast yfir hana og „taka einhverja ákvörðun sem ætti að liggja fyrir á næstu dögum“

Þótt íþróttir verði með snertingu verði áfram leyfðar utan höfuðborgarsvæðisins  gilda sérstakar takmarkanir um höfuðborgarsvæðið.

Þar eru allar íþróttir á vegum ÍSÍ með snertingu bannaðar til 3. nóvember.

Þetta gerir stóru boltaíþróttunum þremur erfitt fyrir en kemur einna verst niður á fótboltanum þar sem örfáar umferðir eru eftir af Íslandsmóti karla og kvenna.

Guðni segir í samtali við fréttastofu að auðvitað hafi það alltaf verið markmið að klára mótin „En þetta gerir okkur vissulega erfitt fyrir.“ KSÍ hafi unnið með ýmsar sviðsmyndir sem gætu komið upp og þetta hafi verið ein þeirra.

Hann segir það auðvitað til skoðunar að klára Íslandsmótið eftir 3. nóvember í þeirri von að þá kunni reglurnar að hafa breyst og nota þá knattspyrnuhallirnar ef veður leyfir ekki knattspyrnu utandyra. „Við förum yfir þetta núna og erum auðvitað byrjuð að velta þessu upp.  Við vitum allavega hvað verður til 3. nóvember.“

Fordæmi eru fyrir því á meginlandi Evrópu að deildarkeppnum í fótbolta hafi verið aflýst vegna kórónuveirunnar, til að mynda í Frakklandi og Hollandi.  Valur stendur með pálmann í höndunum í karlaflokki með átta stiga forskot á FH en baráttan er hörð um laust sæti í evrópukeppnum sem er mikilvæg tekjulind fyrir íslensku félögin.

Staðan er snúnari hjá konunum þar sem Breiðablik er með tveggja stiga forskot á Val og hefur leikið einum leik færra.  Ef deildunum verður aflýst þarf líka að taka ákvörðun um hvaða lið falla og hvaða lið komast upp um deild.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV