Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fólk sem ákveður að láta sig hverfa - „Johatsu“ í Japan

18.10.2020 - 07:00
Erlent · Asía · Heimskviður · Japan
epa05990682 A young Japanese woman stands at a crossing in Tokyo's Shibuya young fashion district, Japan, 24 May 2017 (issued 26 May 2017). According to media reports on 19 May 2017, the Japanese government decided to take active measures to prevent young women from being enrolled into pornographic videos against their will, by expanding police departments with specialists, in an attempt to put an end to organizations and individuals who engage in sexual exploitation for pornography, and urging stronger support for the victims.  EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: Franck Robichon - EPA
Talið er að þúsundir Japana láti sig hverfa á ári hverju - segi skilið við fyrra líf og byrji upp á nýtt annars staðar. Stundum er þetta leið kvenna út úr ofbeldissamböndum og stundum telur fólk, af ýmsum ástæðum, betra að það fari að eilífu frekar en að kalla einhvers konar skömm yfir fjölskyldu sína. Stofnuð hafa verið svokölluð nætur-flutningafyrirtæki þar sem fólk getur fengið aðstoð við að hverfa sporlaust yfir nótt. 

Orðið johatsu í japönsku þýðir einfaldlega „að gufa upp“, eins og vatn. Það er notað um fólk sem kýs að láta sig hverfa frá öllu, hreinlega gufa upp án þess að skilja neinar vísbendingar eftir og hefja nýtt líf á nýjum stað. Oft tekur fólk upp nýtt nafn og sumir ganga svo langt að breyta útliti sínu líka, til að þekkjast síður. Talið er að á hverju ári séu þúsundir Japana sem ákveða að fara þessa leið. Það eru þó ekki til staðfestar upplýsingar um fjöldann.

Það að fólk láti sig hverfa sporlaust þekkist þó líklega í öllum samfélögum. Það sem er athyglisvert er að í Japan virðist þetta vera nokkuð mikill fjöldi og það eru starfrækt sérstök fyrirtæki sem taka að sér að hjálpa fólki sem ákveður að fara þessa leið. En hvers vegna er þetta svona í Japan? Heimskviður ræddu málið við Gunnellu Þorgeirsdóttur, þjóðfræðing og lektor í japönsku við Háskóla Íslands. 

Gunnella bendir á að í Japan búi 127 milljónir manns tiltölulega litlu landsvæði. Japan er tæplega 378.000 ferkílómetrar að stærð. Til samanburðar búi á Íslandi um 350.000 manns á um 103.000 ferkílómetrum. Hún segir að íslensk og japönsk menning sé að mörgu leyti svipuð og hafi sterkar tengingar við að löndin eru bæði eyjar og að sjávarútvegur skipi stóran sess. Auk þess sé ákveðin sjálfbærni gagnvart umheiminum.

Allir í sinni rullu til að samfélagið gangi upp

„En stóri munurinn er sá að hér á Íslandi er ýtt undir það að fólk verði sjálfstæðir einstaklingar og við látum ljós okkar skína og prófum alls konar hluti því við höfum nóg pláss til þess en í Japan, til þess að samfélagið gangi upp, þá þurfa allir að fara inn í sína rullu, þannig lagað séð,“ segir Gunnella.

Mynd með færslu
Gunnella Þorgeirsdóttir, þjóðfræðingur og lektor í japönsku við Háskóla Íslands. Mynd: Alexander Ankirskiy..

Gunnella bendir á að í leikskólum í Japan sé lögð áhersla á að börn geti passað upp á sig sjálf og sömuleiðis að þau njóti sín í hópi. Í grunnskólum sé algengt að borðum sé raðað upp í eyjur og að á hverri eyju séu bæði sterkir námsmenn og þau sem eiga ekki eins auðvelt með námsefnið. Einn nemandi fær svo það hlutverk að bera ábyrgð á að hlutirnir gangi upp á borðinu eða eyjunni, að halda þar ákveðnu jafnvægi. Fólk ber því ekki aðeins ábyrgð á sjálfu sér heldur líka á hópnum sínum. 

epa08576474 School children wearing face masks walk past a stock market indicator board in Tokyo, Japan, 31 July 2020. Tokyo stocks dropped sharply following economic concerns amid the coronavirus pandemic. The 225-issue Nikkei Stock Average closed down 629.23 points, or 2.82 per cent, at 21,710.00. Earlier in the day, Tokyo Metropolitan Government announced 463 new cases of COVID-19 infection, the highest daily number at the Japanese capital.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA

Við getum því sagt að velgengni eða andstæða hennar sé því ekki aðeins einkamál hvers og eins, heldur varði alla heildina.
 
Talið er að mikill meirihluti þeirra sem láta sig hverfa séu konur að flýja ofbeldisfulla eiginmenn. Við komum nánar að því síðar í umfjölluninni. Hinn hópurinn er fólk sem telur best fyrir sína nánustu að það hverfi. „Vegna þess að þau hafa gert eitthvað sem myndi færa skömm á fjölskylduna, til dæmis að lenda í skuldum, lenda í vandræðum, missa vinnuna,“ segir Gunnella. Innan samfélags þar sem allir eigi að gera sitt þá upplifi fólk að það sé almennilegra gagnvart  fjölskyldumeðlimum og gagnvart og gagnvart öllum að láta sig hverfa. „Og þá geta aðrir haldið áfram með lífið án þess að þeirra skömm falli á þau,“ segir hún.

Að hamra niður naglann sem stendur út

Það er til japanskt orðatiltæki sem hljómar á þá leið að ef nagli stendur út úr tréverkinu þá verði að hamra hann niður og þetta er stundum notað til að lýsa japönsku samfélagi sem verður, eins og áður kom fram, að ganga smurt fyrir sig í miklu fjölmenni á tiltölulega litlu svæði. 

epa08572255 A shrine staff wearing a protective face mask walks with an umbrella in front of lit-up lanterns at Yasaka shrine in Kyoto, Japan, 29 July 2020. The number of foreign visitors to Japan dropped staggering 99.9 percent year-on-year for the third consecutive month in June 2020, amid the global COVID-19 coronavirus crisis. The country struggles to revive its economy as the number of daily new infections surpasses 1,000 for the first time on 29 July 2020.  EPA-EFE/DAI KUROKAWA
 Mynd: EPA
Við Yasaka-hofið í Kyoto í Japan.

Fólkið sem sér sig knúið til að láta sig hverfa er úr öllum stigum samfélagsins. Þeirra á meðal eru ung hjón sem opnuðu veitingastað á níunda áratugnum. Þau tóku stórt lán þegar þau opnuðu staðinn og þegar kreppa skall á gátu þau ekki greitt af láninu. Þá voru góð ráð dýr og skömmin mikil. Hjónin ákváðu að láta sig hverfa og leituðu til fyrirtækis sem sérhæfir sig í því að hjálpa fólki í þessum hugleiðingum. Það eru nokkur slík í landinu. Þar er fólki hjálpað við að verða sér úti um fölsuð persónuskilríki og flutningbíll kemur í skjóli nætur ef fólk vill flytja búslóðina með. Fyrirtækið finnur líka íbúð á fjarlægum stað óski fólk eftir því. 

Af fjölskyldunni er það að frétta að í dag er eiginmaðurinn byggingaverkamaður og eiginkonan vinnur á pósthúsi. Þau eiga þrjá syni og aðeins sá elsti veit sannleikann um fortíð foreldra sinna. Saga þeirra og margra fleiri er sögð í bókinni The Evaporated people of Japan, eða Fólkið í Japan sem gufar upp, sem kom út árið 2016 og er eftir rithöfundinn Lénu Mauger og ljósmyndarann Stéphane Remael. Mauger heyrði þessa sögu, sem kveikti áhuga hennar á að rannsaka málin betur. Í heil fimm ár unnu þau að bókinni og ræddu við fjölda fólks í Japan. 

epa08658691 People wearing protective masks are on the way back from their offices at Shinjuku business district in Tokyo, 10 September 2020. Tokyo Metropolitan Government announced on 10 September 2020 it stepped down alert level from top of five to four in the five grade alert system of COVID-19 coronavirus and will lift control of night business hour of restaurant and drinking places in special 23 wards of Tokyo on 15 September 2020.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
 Mynd: EPA

Eitt einkenni á japönsku samfélagi er að ef einn úr fjölskyldunni fer ekki eftir reglunum, þá getur það bitnað á fleirum. Gunnella bendir á að til sé ævagömul þjóðskrá þar sem mjög nákvæmar upplýsingar komi fram, til dæmis hvort fólk hafi á einhvern hátt verið utangarðs. „Sem þýðir að hegðunin þín, hún bitnar ekki bara á þér, hún bitnar á allri fjölskyldunni þinni, á börnunum þínum og mögulega barnabörnum. Þannig að það getur verið mjög auðvelt að brotna undan þessari miklu ábyrgð þó svo að þú hafir verið þjálfaður í þessu frá fyrsta degi.“  

Það getur því erfitt að lifa bara í núinu og hugsa með sér að þetta reddist, því að misgjörðir hafa víðtækari áhrif en aðeins á þann sem ber ábyrgð á þeim. Fólk vill ekki gera fjölskyldu sinni það að vera naglinn sem stendur út úr tréverkinu.

Lögregla leitar ekki nema vísbendingar séu um glæp eða sjálfsvíg

Það er líklega ekki mjög erfitt að láta sig hverfa inn í mannhafið í nýrri borg í mannmörgu landi eins og Japan. En hvernig er hægt að láta sig hverfa á pappír, í skráningum hins opinbera? Persónuvernd er gert hátt undir höfði í Japan og ef fólk skráir ekki heimilisfang sitt hjá borgar- eða bæjaryfirvöldum, þá veit ríkið ekki hvar það býr. 

epa03126625 Pedestrians walk under heavy snow fall at Harajuku district in Tokyo, Japan, 29 February 2012. Heavy snowfalls affected wide areas in eastern Japan, especially in Tokyo where railway services were disrupted during the morning rush hour.  EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA
Í Harajuku-hverfi í Tókýó.

Þegar fólk ákveður að láta sig hverfa sitja ástvinir eftir með ótal margar spurningar og vita ekki hvort viðkomandi er lífs eða liðinn. Sumir ástvinir leita til lögreglunnar en ef það eru ekki neinar vísbendingar um sjálfsvíg eða glæp þá aðhefst lögreglan ekkert og fólk fær ekki að sjá hvort það eru nýlegar færslur á bankareikningum, ekki einu sinni maki. Fullorðið fólk hefur fullan rétt á því að láta sig hverfa án þess að upplýsingar um það séu afhjúpaðar. 

En hvar býr fólk sem er hvergi skráð? Það eru tvö hverfi, eitt í höfuðborginni Tókýó og annað í Osaka þar sem hagkerfið er neðanjarðar, fólk getur fengið vinnu og greitt í seðlum og engra spurninga er spurt. Gunnella að þetta séu lágstéttarhverfi undir stjórn japönsku mafíunnar Yakusa. „Þar er hægt að fá vinnu og blómstra án þess að vera innan kerfisins,“ segir hún.

Annars býr fólk bara á venjulegum stöðum en það er ekki létt að vera utan kerfisins. Það er því ekki ljúft og betra líf endilega sem fólk leitast eftir með því að láta sig hverfa, heldur vill það hlífa fjölskyldunni við einhvers konar skömm. 

epa08711659 Visitors walk through Nakamise Street to Sensoji temple, at dusk at Asakusa, downtown Tokyo, Japan, 30 September 2020 (issued 01 October 2020). Japan started easing entry restrictions to visitors from around the world on 01 October 2020. The Japanese government eased restrictions for mid- and long-term visitors, such as travelers who will be staying for more than three months for business and non-tourism purposes like medical and educational professionals and students. The government also plans to set a maximum daily quota of 1,000 visitors. Japan had closed its border to people from 159 countries and regions due to the COVID-19 coronavirus pandemic.  EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
 Mynd: EPA

Einkaspæjarar leita fólks sem lætur sig hverfa

Nú í sumar var karlmaður um áttrætt sem ákvað að láta sig hverfa. Hann bjó með eiginkonu sinni í íbúð fyrir eldri borgara. Sambandið var ekki eins og best verður á kosið og hann var yfirleitt úti einhvers staðar á daginn. Hann kom þó alltaf heim undir kvöld. Dag einn skilaði hann sér ekki heim. Í Japan eru starfandi einkaspæjarar sem taka það að sér að leita að fólki sem lætur sig hverfa. Eiginkona mannsins réð einn slíkan, Kudou Katsunori, og er honum fylgt eftir í nýlegum hlaðvarpsþætti á vef breska ríkisútvarpsins, BBC

epa08291225 A elderly man wearing a mask rides in a subway train in Tokyo, Japan, 13 March 2020. According to latest media reports, more than 1,300 people are infected with coronavirus across Japan, including some 700 that were quarantined aboard the Diamond Princess cruise ship in Yokohama.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA

„Oft tala hjón ekki um tilfinningar sínar hvort við annað. Það er annmarki á japanskri menningu,“ segir hann. „Oft skilur fólk en hvað gerir fólk sem getur það ekki? Það fer að heiman. Fólk getur ekki sagt maka sínum sannleikann. Það verður til þess að fólk verður johatsu eða það sem verra er, það sviptir sig lífi,“ segir Kudou við Breska ríkisútvarpið i myndbandi um hlaðvarpsþáttinn.

Skrifstofan hans er í borginni Yokohama og síðasta aldarfjórðunginn hefur hann sérhæft sig í að leita að týndu fólki. Þegar gamli maðurinn hafði verið týndur í nokkra daga fannst bakpokinn hans á veitingastað og var komið til lögreglunnar. Vegna persónuverndarlaga fengu hvorki konan hans né einkaspæjarinn að vita á hvaða veitingastað þetta var. Síðast sást til hans á ákveðinni lestarstöð og hún fór þangað á hverjum degi til að gá hvort hún sæi hann. Hún velti því oft fyrir sér hvort hann leiði hugann einhvern tíma að henni og hvert hann hefði eiginlega farið. 

Kudou einkaspæjari leitaði líka um allt hverfið, við lestarstöðina og á hótelum. Hann fór á leigumiðlanir til að kanna hvort maðurinn hefði komið þar við, en engar vísbendingar bárust, fyrr en þremur mánuðum síðar. Þá fékk Kudou símtal frá hóteli um að þar væri gamli maðurinn. Hann kvaðst ekki vilja koma aftur heim og Kudou varð að færa eiginkonunni þær sorglegu fregnir.  

epa08431824 A couple wearing face masks walk on the bridge near Kyoto's Gion tourist district in Kyoto, Japan, 19 May 2020. Restaurants and bars in Kyoto are slowly reopening for business but are struggling to bring back customers amid a state of emergency still in place. According to data released by the government, Japan's economy contracted by an annualized 3.4 percent in the January-March quarter due to the coronavirus pandemic, sliding world's third-largest economy into recession.  EPA-EFE/DAI KUROKAWA
 Mynd: EPA

Hugtakið johatsu hefur verið þekkt í áratugi í Japan. Talið er að á sjötta áratugnum hafi tilfellunum fjölgað mikið. Þá flykktust ungir karlar úr dreifbýlinu í borgirnar og fengu störf þar sem vinnumenningin var og er reyndar enn oft ómanneskjuleg; fólk vinnur langa vinnudaga og kröfurnar eru miklar. Það er líka álitið vandamál í Japan að fólk hreinlega vinni yfir sig, lendi í alvarlegri kulnun og sjái ekki aðra leið en að svipta sig lífi. Það er kallað karoshi. Tíðni sjálfsvíga í landinu var árið 2017 sú sjöunda hæsta meðal OECD-ríkja, 14,9 á hverja 100.000 íbúa.

Sama ár var gerð könnun sem tíu þúsund manns tóku þátt í. Samkvæmt niðurstöðunum unnu um tuttugu prósent fólks áttatíu yfirvinnutíma á mánuði, hið minnsta. Yfirvöld hafa reynt að bregðst við og hvetja fyrirtæki til að leyfa fólki til dæmis að vinna styttra á föstudögum. Sérfræðingar segja aftur á móti að vinnumenningin sé svo sterk að sumir sjái ekki annað í stöðunni en að svipta sig lífi. Hin leiðin geti svo verið johatsu, að láta sig hverfa.

Það geta verið ýmsar ástæður sem vekja þessa miklu skömm hjá fólki; stundum hefur ungt fólk fallið í mikilvægum prófum og getur ekki hugsað sér að segja foreldrunum frá. Svo eru dæmi um fólk með spilafíkn, fólk sem hefur komið sér í miklar skuldir, vill sleppa úr klóm sértrúarsafnaða eða upplifir mikla skömm, einhverra hluta vegna. Í bókinni sem fjallað var um fyrr í þessum pistli er fjallað um karlmann sem hafði haldið fram hjá konunni sinni en treysti sér ekki til að segja henni það. Einn daginn var honum sagt upp í vinnunni. Hann taldi sig heldur ekki geta sagt henni það, hann skammaðist sín svo mikið. Fyrstu dagana fór hann út á hverjum morgni, klæddi sig í vinnufötin og lést vera að fara í vinnuna. Hann varði heilu dögunum á afviknum stöðum. Stundum í allt að í nítján klukkutíma því hann þóttist vera úti að fá sér drykk með vinnufélögunum eftir vinnu. Svo kom að þeim útborgunardegi þegar hann fékk engin laun, enda ekki að vinna. Þá ákvað hann að láta sig hverfa. 

Flýði ofbeldisfullan eiginmann og sinnir nú næturflutningum

Miho Saita er ein þeirra fjölmörgu kvenna sem hafa farið þessa leið til að sleppa frá ofbeldisfullum eiginmanni. Það gerði hún fyrir sautján árum síðan. Hún hafði leitað til lögreglunnar vegna barsmíða eiginmannsins en fengið þau svör að það væri erfitt að vera í sambandi og að lögreglan gæti ekkert gert. Í eitt sinn þegar hún leitaði á lögreglustöðuna tók á móti henni eldri lögreglumaður sem hvatti hana til að flýja. Hún ákvað að fara að hans ráðum og fór að heiman í skjóli nætur, með hundinn sinn og nokkrar flíkur og kom aldrei til baka.

epa08437046 A woman wearing a face mask walks in Tokyo's Ginza shopping district, Japan, 22 May 2020. Three new coronavirus infections were reported in the Japanese capital, the lowest figure since the state of emergency was declared in April.  EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
 Mynd: EPA

Saita segir frá reynslu sinni í umfjöllun Al Jazeera um johatsu. Síðan hún flýði á þennan hátt hefur hún unnið við að aðstoða fólk í sömu sporum og hún var. Hún rekur svokallað yonige-ya næturflutningafyrirtæki, sem tekur að sér að flytja fólk í skjóli nætur. 

Í heimildarmynd á vef Al Jazeera má fylgjast með henni hjálpa konu flytja með börn sín og búslóð að morgni dags, eftir að eiginmaðurinn var farinn til vinnu. Saita fann nýja íbúð fyrir fjölskylduna í annarri borg og lét vita af aðstæðum þeirra á næstu lögreglustöð. Þau er því ekki alveg óskráð í kerfinu, þó að enginn utan lögreglustöðvarinnar geti komist að heimilisfanginu. Saita segir við Al Jazeera að með starfseminni sé hún að hjálpa fólki sem hafi engin önnur úrræði. Allir sem hún hjálpi hafi þegar leitað til lögreglunnar en ekkert hafi komið út úr því. Daglega fær fyrirtækið hennar fimm til tíu ný mál til úrlausnar og vilja flestir lagalega aðstoð. Árlega hjálpar hún um hundrað til hundrað og fimmtíu manns að hverfa. 

Það getur verið snúið fyrir hjón að skilja í Japan. Eftir skilnað er barn aðeins skráð sem barn annars foreldrisins. Þá bendir Gunnella á að mjög algengt sé að mæður séu heima með börnum sínum þar til þau verði þriggja ára og jafnvel þar til þau byrja í skóla. Það hefur þær afleiðingar að konur eru síður útivinnandi, hafa því ekki sínar eigin tekjur og eignir eru skráðar á eiginmanninn. Þá þurfi líka að skipta um ættarnafn eftir skilnað. Það er því algengt að fólk skilji innanhúss, eins og það er kallað, segir Gunnella. Þá er fólk tilfinningalega skilið en býr áfram saman til að hafa allt saman rétt á pappírunum.  

„Þetta er mjög sterkt í japanskri menningu sem þýðir það að kona sem ætlar að reyna að sleppa úr erfiðum aðstæðum án samþykkis er mjög illa stödd, og þá er ákjósanlegra að flýja og missa alla sína stöðu, missa samband við fjölskyldu sína heldur en að verða eftir og hún er bæði að taka ákvörðun fyrir sína hönd og barnanna og þetta á eftir að bitna á börnunum, þannig að þetta er stór ákvörðun.“ Gunnella segir að johatsu og karoshi, sjálfsvíg sem rakin eru til kulnunar, séu töluvert í umræðunni í Japan. Það sama eigi við um rétt barna til að hitta báða foreldra sína eftir skilnað og aðrar félagslegar úrbætur. Hún segir að fólk sé mjög meðvitað um þörfina á breytingum. 

„En spurningin er bara, hvernig á að breyta kerfi sem hefur verið til staðar svona lengi og sem að byggist svona mikið upp á því hvað þú hefur gert, hvað þínir forverar hafa gert og allt kerfið er byggt upp með það í huga að þú fúnkerir í hóp. Þá er mjög erfitt að vera einmitt einstaklingurinn sem stingst út úr og það er litið hornauga því að þá ertu ekki alveg að fúnkera inni í samfélaginu,“ segir Gunnella. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir