Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Fékk COVID og hélt hann væri í haldi hryðjuverkamanna

18.10.2020 - 13:58
Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson / RÚV/Ingvar Haukur Guðmundsson
„Þetta er það versta sem ég hef lent í, bæði að vera svona fastur og líka að upplifa að þínir nánustu viti ekkert hvar þú ert,“ segir Kristján Gunnarsson sem veiktist af COVID-19 fyrir um sjö mánuðum. Tvö fyrstu prófin sem hann fór í reyndust neikvæð en þegar kom í ljós að hann væri sýktur var hann hætt kominn og þurfti að vera í tvær vikur í öndunarvél. Hann var í miklu lyfja- og hitamóki sem olli ranghugmyndum og martröðum.

Kristján Gunnarsson fjármálastjóri hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar er fæddur og uppalinn í Reykjavík og bjó frá tveggja ára til tvítugs í Vogahverfinu. Hann fékk mikið tónlistaruppeldi í hverfinu enda segir hann margar upprennandi hljómsveitir hafa æft sig á kvöldin og stundum kíkti hann inn. „Maður var á bílskúrsgægjum að horfa á Togga og hljómsveitina Tempó,“ segir hann í samtali við Hrafnhildi Halldórsdóttur í Sunnudagssögum á Rás 2. Hann var virkur í kristilegu ungmennastarfi KFUM og sótti sunnudagaskólann. Eftir grunnskóla gekk hann í Verslunarskóla Íslands og starfaði í verslun foreldra sinna, Laugarnesbúðinni sálugu. „Þetta var kaupmaðurinn á horninu, sem síðar dó út,“ segir Kristján. Fjölskyldan þekkti vel viðskiptavinina sem verslunina sóttu og þar voru ýmsir mektarmenn á borð við Maríu Markan söngkonu, myndlistarmennina Ásmund Sveinsson og Kjarval og verðandi Stuðmenn.

„Böddi, ef þú ert að hlusta langar mig í U2-plöturnar“

Hann lærði viðskiptafræði og endurskoðun og fór að starfa í Skífunni árið 1984. Þetta var um það leyti sem geisladiskar voru að ryðja sér rúms og Kristján var svo spenntur fyrir þessari nýjung að hann gaf nágrannanum allt vínylplötusafnið sitt en sér mikið eftir því í dag. „Böddi, ef þú ert að hlusta langar mig í U2-plöturnar,“ segir hann glettinn. Hann giftist fyrrum konu sinni 1979 og eignuðust hjónin tvær dætur. Hann fór síðar að starfa hjá Samvinnuferðum-Landsýn og fékk kærkomið tækifæri til að ferðast um heiminn. „Það var menningarsjokk að fara til Kenýa. Að vera face-to-face við ljón er öðruvísi,“ segir hann. „Ég tel mig heppinn að hafa farið til þessara landa, líka Kúbu og Indlands. Það þroskar mann að sjá hvað margir hafa það dapurt en fólkið er oft mjög lífsglatt.“

„Hann keypti skýringuna og hélt ekki að ég hefði verið á einhverju sjúddirarrirei“

Hann starfaði í Bílanausti en var látinn fara eins og margir fleiri í skipulagsbreytingum og segir hann að það hafi ekki verið góð reynsla. „En þá verður maður að setjast niður að hugsa og þá er vinnan að halda rútínu, hafa samband við fólk og hitta mennina. Ég vissi ekkert hvað var í boði,“ segir Kristján sem rak augun í auglýst starf hjá Fjármálasviði Reykjavíkurborgar og ákvað að slá til og sækja um. Hann var ráðinn. „Ég fór í fyrsta viðtal sem gekk vel en fór svo austur í bústað og datt kylliflatur á andlitið og var krambúleraður eins og ég hefði verið á fylleríi í viku,“ rifjar hann upp. Þá varð hann feginn því að viðtalinu var allavega lokið og hann gat jafnað sig áður en hann hitti yfirmanninn aftur. Sú heppni varð þó ekki með honum. „Sviðsstjórinn hringir og segir: Ég þarf aðeins að fá að hitta þig aftur. Ég mæti lítandi út meira eins og Lalli Johns en kandídat í stöðu hjá fjármálasviði Reykjavíkurborgar,“ segir Kristján og hlær. „En Ragnar á bústað líka og hann þekkir að maður þarf að halda hlutunum við. Hann keypti skýringuna og hélt ekki að ég hefði verið á einhverju sjúddirarrirei.“

Fær loksins rétta niðurstöðu og þá er byrjað að slokkna á lungunum

Í dag er Kristján í fjarsambandi við kærustuna sem býr í Danmörku. Hann fór að heimsækja hana í vor og kom heim til Íslands aftur 16. mars. Viku síðar finnur hann fyrir miklum hausverk sem hverfur ekki. Hann fer á heilsugæsluna og í skoðun þar sem hann er spurður út í einkennin en þau passa ekkert við þekkt einkenni af COVID-19 og þar sem Kristján er ekki í áhættuflokki, er í kjörþyngd og ekki með undirliggjandi sjúkdóma var hann sendur heim með þá greiningu að hann væri með 40 stiga hita og slæma flensu. Það sem honum er sagt að gera er að hvíla sig. „Þetta er á þriðjudegi. Á fimmtudegi eru þrír á deildinni sem ég stýri orðnir veikir og þá eru allir í deildinni sendir í test.“ Niðurstaða úr prófi Kristjáns var neikvæð en þá var hann orðinn mjög veikur. Dætur Kristjáns sinntu honum enda var hann orðinn alveg ósjálfbjarga og ákváðu þær eftir nokkra daga og engin batamerki að hringja í læknavaktina sem ráðlagði þeim að koma honum upp á bráðadeild þar sem hann fer í annað COVID-próf. „Ég kem í sjúkrabíl á sokkaleistunum og niðurstaðan er aftur neikvæð,“ segir Kristján sem þá hafði tvisvar fengið þær niðurstöður að hann væri ekki með COVID-19. Hann er því enn einu sinni sendur heim. Hann lagast hins vegar ekkert og fer aftur upp á bráðadeild þar sem hann er settur í lungnaberkjupróf. Þá liggur loks niðurstaðan fyrir að hann er smitaður af COVID-19 og það mátti vart tæpara standa. „Þá kemur í ljós að það er að slokkna á lungunum.“

Hélt hann hefði verið sendur til Parísar og New York á vegum hryðjuverkasamtaka

Kristján var settur í öndunarvél þar sem hann var í tvær vikur. „Þetta eru verstu tvær vikur sem ég hef upplifað,“ segir hann. Kristján var á sterkum verkja- og svefnlyfjum og hann var með litla meðvitund. „En þegar maður er í öndunarvél á svona lyfjum heyrir maður stundum í heilbrigðisstarfsfólkinu og verður skíthræddur. Það er óþægilegt að vera með svona slöngu ofan í sér og ég barðist um. Var með martraðir og alls konar,“ segir Kristján sem var kominn með miklar ranghugmyndir. „Ég upplifði að ég væri í haldi hjá hryðjuverkamönnum og þeir voru klæddir eins og hjúkrunarfræðingar, í grænum galla með grímu og glerskjöld.“ Hann á sterkar minningar um að hafa verið sendur til Parísar og New York á vegum hryðjuverkasamtakanna og var viss um að dætur hans og hans nánustu vissu ekkert hvað hefði orðið af honum. Þegar hjúkrunarkonurnar útskýrðu fyrir honum að þær hefðu verið í daglegu sambandi við dætur hans var hann viss um að þær væru að ljúga. „Ég hugsaði: Ég var ekkert hér í viku, ég var í New York og ég var í París og þið eruð að plata mig.“ Þegar Kristján leit í kringum sig og horfði út um gluggann úr rúminu sínu var hann ekki sannfærður. „Þá hugsaði ég: Þetta eru öflug samtök. Þau eru búin að leigja heila hæð hjá Borgarspítalanum.“

Það var einhvers konar geðrof sem olli þessum ranghugmyndum og ofsjónum og segir hann það algengt þegar fólk er mikið sýkt og á sterkum lyfjum. „Tengdapabbi minn fyrrverandi fór á gjörgæslu í öndunarvél og hann var á fullu í Sýrlandi og kunningi minn lenti í svipuðu, hann var í Afganistan. Við erum allir bara að berjast.“ Í dag segist hann geta séð spaugilegu hliðina á þessu en ástandið segir hann alls ekkert fyndið meðan á því stóð. „Þetta er það versta sem ég hef lent í, bæði að vera svona fastur og líka að upplifa að þínir nánustu viti ekkert hvar þú ert.“

Fannst hann vera að troða upp með Tvíhöfða og var kominn fram á gang þegar hann vaknaði

En hann var ekki aðeins í haldi hryðjuverkamanna í draumunum. Eftir að hann var kominn úr öndunarvél og aðeins kominn til sjálfs sín var hann settur í einangrun á lungnadeild í viku. „Þá var smá salli eftir í ruglinu,“ segir hann. Hann átti erfitt með að festa svefn og ákvað að hlusta á Tvíhöfða í spilara RÚV. Hann sofnar út frá því en þegar hann vaknar er hann kominn fram á gang sem var stranglega bannað. „Þá fannst mér ég vera á Ísafirði að troða upp með Tvíhöfða,“ segir hann og hlær. „Ég vakna í síðum nærbuxum og slopp merktum eign Ríkisspítalanna en þeir eru hvergi sjáanlegir.“

Skammast ekki yfir að hafa næstum dáið heldur þakkar fyrir að vera lifandi

Kristján hefur síðustu mánuði verið frá vinnu og í endurhæfingu enda var hann grútmáttlaus að eigin sögn eftir útskrift úr einangruninni þar sem hann gat hvorki farið á salernið né í sturtu og ekkert hitt fjölskylduna. Á Reykjalundi dvaldi hann í tvær vikur og eftir það fór hann að geta séð um sig að mestu. Eftir heimkomu gat hann þó til dæmis ekki horft á blaðamannafundi þríeykisins. Hann segir að vinir hans og fjölskylda hafi líka átt sérstaklega erfitt með að fylgjast með á meðan hann væri í öndunarvél, óttaslegin að heyra af andláti sem væri mögulega hans.

Hann finnur þó ekki fyrir neinni reiði yfir því sem hann gekk í gegnum. „Maður fer ekki að skammast yfir að hafa næstum dáið, maður þakkar fyrir að vera lifandi,“ segir hann. Sárast finnst honum bara að hafa verið greindur neikvæður fyrst því þá hlúðu dætur hans óhræddar að honum og önnur þeirra veiktist. Þau eru þó öll heil heilsu í dag. „Ég fékk gula spjaldið en þá forgangsraðar maður upp á nýtt. Í öllu þessu sér maður að það sem skiptir máli er fjölskylda, vinir, samstarfsfólk og kunningjar.“

Þegar Kristján varð 64 ára leyfði hann sér að hugsa með sér að ef hann myndi falla frá þá gæti hann verið þakklátur fyrir að hafa átt yndislegan starfsferil, dætur og barnabörn og að hann gæti svosem kvatt tiltölulega sáttur. Í dag er hann viss um að hann sé síður en svo tilbúinn til að kveðja. „Svo lendi ég í þessu, er við dauðans dyr og þá hugsa ég: Þetta er nú meiri vitleysan í mér. Ég er hér og fæ tækifæri til að lifa og á tuttugu góð ár. Ég ætla bara að rukka þau,“ segir hann ákveðinn. „Ég er svo heppinn að eiga kærustu í Danmörku og það eykur lífsgleðina. Ég er búinn að forgangsraða upp á nýtt og ætla ekki að fá rauða spjaldið.“

Hrafnhildur Halldórsdóttir ræddi við Kristján Gunnarsson í Sunnudagssögum á Rás 2.

juliame's picture
Júlía Margrét Einarsdóttir
vefritstjórn
hrafnhih's picture
Hrafnhildur Halldórsdóttir
dagskrárgerðarmaður