Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

„Þetta var dagurinn minn þannig að ég er ótrúlega sátt“

Mynd: Fríða Rún / RÚV

„Þetta var dagurinn minn þannig að ég er ótrúlega sátt“

17.10.2020 - 18:12
Andrea Kolbeinsdóttir og Hlynur Andrésson voru afar ánægð með árangur sinn á HM í hálfu maraþoni sem fór fram í Póllandi. Hlynur setti nýtt Íslandsmet í greininni og Andrea bætti sinn besta tíma.

Fjórir Íslendingar tóku þátt í HM í hálfu maraþoni sem fram fór í Póllandi í dag. Í hlaupinu setti Hlynur Andrésson nýtt Íslandsmet og Andrea Kolbeinsdóttir bætti sinn besta tíma í hálfu maraþoni.

Arnar Pétursson þurfti því miður að hætta hlaupinu í dag vegna veikinda og Elín Edda Sigurðardóttir glímdi við meiðsli sem héldu aftur af henni. Það voru því misánægðir hlauparar sem ræddu við Fríðu Rún Þórðardóttur sem ferðaðist með hópnum til Póllands og tók meðfylgjandi viðtöl við hlaupara. 

Andrea var að vonum ánægð með sinn árangur en hún hljóp vegalengdina á 1:17:07 sem er hennar besti tími í hálfu maraþoni. „Ég er ótrúlega sátt og kom sjálfri mér á óvart miðað við að undirbúningurinn var ekki fullkominn. Þetta var dagurinn minn þannig að ég er ótrúlega sátt," segir Andrea.

Hlynur Andrésson var einnig afar ánægður með hlaup sitt í dag en hann kom í mark á tímanum 1:02:47 sem er nýtt Íslandsmet. En Hlynur sagði að árangurinn hefði verið vonum framar. „Það er örsjaldan á ferlinum að maður gerir betur heldur en maður heldur að maður geti. Í dag var sá dagur hjá mér," sagði Hlynur. 

Mynd: Fríða Rún / RÚV

Elín Edda Sigurðardóttir var óheppin í sínu hlaupi þegar að gömul meiðsli tóku sig upp hjá henni. „Þetta var alls ekki minn besti dagur. Örugglega mín versta upplifun sem ég hef átt í keppnishlaupi. Eftir fimm kílómetra fóru að taka sig upp gömul meiðsli sem að voru verri en nokkurn tíman áður. Ég var með mjög sáran verk í iljunum restina af hlaupinu," segir Elín Edda sem var engu að síður staðráðin í því að klára hlaupið þrátt fyrir að hafa þurft að skokka hægt og rólega síðasta spölin. 

Mynd: Fríða Rún / RÚV

Tengdar fréttir

Íþróttir

Nýtt Íslandsmet hjá Hlyni á HM í hálfu maraþoni