Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Samið um vopnahlé í Nagorno-Karabakh

17.10.2020 - 19:44
epa08751876 Azerbaijan rescuers work on the devastated houses allegedly damaged by recent shelling in Ganja, Azerbaijan, 17 October 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/AZIZ KARIMOV
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Aserar og Armenar hafa samið um vopnahlé í héraðinu Nagorno-Karabakh. Það á að taka gildi á miðnætti eftir nærri þriggja vikna átök í héraðinu.

Greint var frá þessu í yfirlýsingum frá utanríkisráðuneytum beggja ríkjanna, Armeníu og Aserbaíjan. Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússa, ræddi við kollega sína fyrr í dag og lagði mikla áherslu á að vopnahléð yrði virt, en síðustu vopnahlé hafa verið þverbrotin. Utanríkisráðuneyti ríkjanna staðfestu bæði í yfirlýsingum sínum að samningaviðræðum yrði haldið áfram. 

Aserar gerðu stórskotaárás á stærstu borg Nagorno-Karabakh, Stepanakert, síðdegis í gær. Mikill hluti íbúa hennar hefur þegar flúið borgina vegna linnulítilla árása síðustu vikna og árás gærdagsins hrakti enn fleiri á flótta. Í nótt svöruðu Armenar með eldflaugaárás á borgina Ganja, næst-stærstu borg Aserbaísjan. AFP-fréttastofan hefur eftir sjónarvottum að eldflaug hafi eyðilagt nokkur íbúðarhús og einn þeirra sagðist hafa horft á björgunarlið bera sjö lík út úr rústunum. Árásin var gerð í skjóli nætur þegar fólk var flest í fastasvefni.